Guðrún Bryndís Karlsdóttir segist persónulega vera á þeirri skoðun að hún eigi frekar að leiða lista Framsóknarflokksins í Reykjavík en Guðni Ágústsson.

Guðrún skipar í dag 2. sætið á lista Framsóknar og í viðtali við útvarpsstöðina Bylgjuna í hádeginu var hún spurð hvort hún teldi sig betri kost en Guðna. Hún svaraði:

„Já persónulega finnst mér það en kjörstjórnin velur hverjum þeim finnst bestur," sagði Guðrún Bryndís. „Kjörstjórn bíður erfitt verkefni, spurningin er hvort fólk vilji nýja strauma inn í borgarpólitíkina eða halda þessu gamla áfram."

Óskar Bergsson átti að leiða lista Framsóknar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor en hann ákvað að stíga til hliðar fyrir nokkrum vikum.