Már Guðmundsson seðlabankastjóri mun afhenda Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrsta tíu þúsund króna peningaseðilinn eftir hádegið á morgun í tilefni af því að nýi seðillinn verður settur í almenna umferð. Seðillinn sem Bjarni fær verður númer eitt og verður hann til varðveislu í safnakosti landsbanka.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri greindi fyrst frá því á ársfundi bankans í mars í fyrra að bankinn væri að vinna að útgáfu nýs 10.000 króna peningaseðils. Ástæða þessa sagði hann m.a. verðlagsþróun og aukið seðlamagn í umferð en það hafi gefið tilefni til að meta þörfina fyrir útgáfu nýs peningaseðils með hærra verð. Nýr peningaseðill hefur ekki litið dagsins ljós í 18 ár eða frá árinu 1995 þegar tvö þúsund króna seðill var settur í umferð. Þegar það var voru níu ár frá því fimm þúsund króna seðillinn leit dagsins ljós. Már sýndi svo seðilinn í síðasta mánuði og ræddi VB Sjónvarp þá við hann.

Nýi peningaseðillinn er tileinkaður Jónasi Hallgrímssyni og verkum hans.

Fram kemur í tilkynningu frá Seðlabankanum að í tilefni dagsins muni Bjarni flytja ávarp og Már flytja erindi um reiðufjárútgáfu, einkum hér á landi.

Seðillinn verður aðgengilegur í hluta bankaútibúa frá og með morgundeginum, en ekki er búist við almennri dreifingu í hraðbönkum fyrst um sinn.