*

mánudagur, 16. september 2019
Innlent 23. apríl 2008 17:29

Björgólfur Guðmundsson: Íslendingar stofni þjóðarsjóð

vill stjofna sjóð til að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu

Ritstjórn

Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans sagði í ávarpi sínu á aðalfundi bankans í dag að Íslendingar ættu að koma sér upp öflugum varasjóðir, einhvers konar þjóðarsjóði til að styrkja varnir utanaðkomandi skakkaföllum, tryggja sig betur, mæta sveiflum og skapa meira öryggi og stöðugleika í efnahags- og fjármálaumhverfi landins.

„Í þeirri ólgu sem skapast hefur hér á landi að undanförnu vegna hinnar alþjóðlegu lánakreppu hef ég hugleitt hvernig lítil sjálfstæð, áköf og metnaðarfull þjóð sem er eins háð alþjóðlegum kröftum og raun ber vitni, getur varið sig,“ sagði Björgólfur.

„Við Íslendingar höfum farsællega byggt upp öflugt lífeyrissjóðakerfi sem vakið hefur athygli og aðdáun víða um heim. Einstaklingar hafa lagt fjármuni til hliðar sem þeir geta nýtt síðar á ævinni þegar hægist um,“ sagði hann og sagði lífeyrissjóðskerfið veita fólki hugarró og öryggi.

„Við sem þjóð höfum hins vegar ekki sýnt þessa fyrirhyggju. Við eigum ekki sjóð sem mætir alvarlegum þrengingum eins og þeim sem við göngum nú í gegnum,“ sagði Björgólfur.

„Ég er þeirrar skoðunar að ef við Íslendingar viljum halda áfram á þeirri braut að taka fullan þátt í viðskiptum á alþjóðamarkaði, halda áfram að auka tekjur okkur af viðskiptum við útlönd, halda sjálfstæðri efnahagsstjórn og eiga kost á eigin gjaldmiðli, þá sé okkur nauðsynlegt að koma okkur upp mjög öflugum varasjóði, - einskonar þjóðarsjóði,“ sagði Björgólfur.

„Þetta er gamalkunn búhyggindi, - í góðæri skal maður huga að mögru árunum. Norðmenn hafa sinn olíusjóð, sem tryggir þeim mikinn efnahagslegan stöðugleika. Við ættum að koma okkur upp þjóðarsjóði sem hefði tekjur af auðlindum lands og hugviti þjóðarinnar. Þjóðarsjóði sem mundi verja efnahagslífið og hagstjórnina fyrir svipuðum áföllum þeim sem dunið hafa á okkur síðustu mánuði.“

Björgólfur sagðist gera sér grein fyrir því að slíkur sjóður verði ekki til á einni nóttu og ljóst væri að sjóður sem þessi býr ekki til nýja peninga.

„En hann mun stuðla að stöðugleika og ég vil trúa því að ein auðugasta þjóð veraldar muni á áratug eða svo safna fjármunum sem munu skipta sköpum og skjóta alveg nýjum og sterkum stoðum undir efnahagslegt og stjórnarfarslegt sjálfstæði Íslendinga. Lífeyrissjóðirnir sem fyrir um fjörtíu árum byrjuðu á einni lítilli innborgun eru nú orðnir miklu stærri en ríkissjóður. Sama mun verða um okkar varasjóð. Hálfnað er verk þá hafið er,“ sagði Björgólfur.