*

föstudagur, 10. júlí 2020
Erlent 15. júlí 2019 13:48

Boeing 737 Max vélarnar fái nýtt nafn

Trump hafði mögulega rétt fyrir sér um að vélarnar yrðu markaðssettar undir nýju nafni. Merktar sem 737-8200.

Ritstjórn
epa

Boeing 737 Max vél sem framleidd hefur verið fyrir Ryan Air og býður líkt og aðrar vélar af þessari gerð á bílastæðum við verksmiðju félagsins er ekki með hina nú alræmdu merkingu á sér. Þess í stað hefur vélin merkt sem 737-8200 á nefi vélarinnar, sem ýtt hefur undir vangaveltur um að félagið hyggist markaðssetja vélarnar undir nýju nafni þegar þær fá loks flugrekstrarleyfi.

Eins og ítarlega hefur verið fjallað um hafa vélar af þessari gerð ekki verið leyft að fljúga síðan tvö flugslys á 5 mánaða tímabili voru rekin til sjálfstýribúnaðar sem tók stjórnina af flugmönnum í annars vegar Eþíópíu og hins vegar Indónesíu í flugtaki.

Ýmsir hafa sagt að félagið ætti að endurmerkja vélarnar og markaðssetja þær undir nýju nafni, þar á meðal Donald Trump Bandaríkjaforseti sem tísti í apríl að „Ef ég væri Boeing, myndi ég LAGA Boeing 737 MAX vélarnar, bæta við einhverjum frábærum eiginleikum og endurmarkaðssetja hana undir nýju nafni“.

Fengu vélarnar á afslætti

Fleiri en Ryanair hafa notað annað nafn yfir vélarnar þegar tilkynnt hefur verið um pantanir á vélum af þessari gerð, sem þrátt fyrir kyrrsetningu renna enn af færibandi flugvélaverksmiðju Boeing.

Samkvæmt tilkynningu IAG flugsamsteypunnar sem á m.a. British Airways og Aer Lingus þegar félagið keypti vélar af þessari gerð á afslætti í síðasta mánuði var vísað til þeirra sem „200 B737 flugvéla“ sem myndi bætast í hóp véla félagsins sem væru „blanda 737-8 og 737-10 véla“.

Boeing hefur neitað að staðfesta nafnabreytinguna en haft er eftir talsmönnum félagsins á sölusýningu í París að félagið muni íhuga nafnabreytingu til að hjálpa til við að koma vélunum aftur í háloftin að því er Guardian greinir frá.

Síðan tilkynnti félagið þó að það væri ekki að vinna að nafnabreytingu á þessari mest seldu vél félagsins frá upphafi, en miklar vonir voru settar á að hún gæti aukið sparnað í flugrekstri, og því hafa borist um 5.000 pantanir á vélinni. Engin vél hefur þó verið afhent síðan í apríl.