Borgarráð Reykjavíkur samþykkti samhljóða í morgun að halda áfram byggingu Tónlistarhússins við höfnina. Ráðgert er að Nýi Landsbankinn fjármagni verkefnið sem talið er kosta um 13 til 14 milljarða króna. Heildardæmið með rekstri í 35 ár er hins vegar metið á rúma 28 milljarða króna.

Þegar liggja fyrir rög að samkomulagi um að Austurhöfn taki yfir félagið Portus sem átti samkvæmt samningi að byggja og reka húsið. Með í kaupunum fylgja systurfélögin Totus og Situs. Totus er fasteignafélag um byggingu hússins en hið síðarnefnda á lóðar- og byggingarréttindi á svæðinu.

Skuldbindingar ríkis og borgar vegna þessa samnings verði með framreikningum í dag um 808 milljónir króna á ári til 35 ára. Þær skuldbindingar miðast við 54% kostnaðarins komi frá ríkinu og 46% frá Reykjavíkurborg í gegnum sameiginlegt félag þessara aðila í Austurhöfn-TR. Samtals gerir þetta tæplega 28,3 milljarða króna. Hluti af þeirri upphæð er rekstarkostnaður hússins.

Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður stjórnar Faxaflóahafna sf. og skipulagsráðs segir að áætlanir sýna að tekjur frá Sinfóníuhljómsveit Íslands, leigu sala, veitingahúsa, annarri aðstöðu og bílastæðum eigi að geta staðið undir rekstrarkostnaði.