Þann 7. júní 2013 síðastliðinn heiðraði Kvennanefnd Verkfræðingafélags Íslands fjórar konur sem fyrstar íslenskra kvenna luku verkfræðiprófi. Heiðraðar voru þær Kristín Kristjánsdóttir Hallberg, nú látin, en hún lauk prófi í efnaverkfræði árið 1945, Sigrún Helgadóttir sem lauk prófi í byggingarverkfræði árið 1966, Sigríður Á. Ásgrímsdóttir sem lauk prófi í rafmagnsverkfræði árið 1968 og Guðrún Hallgrímsdóttir sem lauk prófi í matvælaverkfræði árið 1968. Frú Vigdís Finnbogadóttir afhenti viðurkenningarnar.

Í frétt á vef verkfræðingafélagsins segir að konurnar fjórar séu merkir brautryðjendur enda verkfræðin löngum talin eitt helsta vígi karla. Konur eru enn í dag í miklum minnihluta meðal verkfræðinga hér á landi sem annars staðar. Kvennanefnd VFÍ þykir löngu tímabært að vekja athygli á þessum frumkvöðlum sem ruddu brautina fyrir aðrar konur í verkfræði.