Cisco keypti í gær WebEx fyrir 3,2 milljarða Bandaríkjadali, en WebEx hefur sérhæft sig í að bjóða upp á þjónustu á netinu sem veitir fyrirtækjum tækifæri til halda fundi og skiptast á upplýsingum í gegnum internetið. Bréf í WebEx hækkuðu í kjölfarið um rúmlega 22%.

Þessi yfirtaka Cisco er sú næst stærsta sem það hefur ráðist í, en á síðasta ári yfirtók það Scientific-Atlanta fyrir 6,9 milljarða dollara. Viðskiptastefna Cisco hefur hingað til verið sú að yfirtaka fremur lítil fyrirtæki heldur en stór og segja stjórnendur Cisco að sú stefna muni ekki taka grundvallarbreytingum, þrátt fyrir þessar tvær síðustu yfirtökur.