Vegna versnandi orkukrísu í Evrópu hvetja dönsk stjórnvöld almenning nú til að vera skemur í sturtu og þurrka fötin sín utandyra til að draga úr orkunotkun. Ráðin eru hluti af ríflega hálfs milljarðs íslenskra króna markaðsherferð sem hvetur einnig fólk til að taka raftæki úr sambandi áður en það fer í sumarfrí. Um 29% af notkun Danmerkur á jarðgasi má rekja til heimila landsins. Bloomberg greinir frá.

Engin merki eru um að verð á jarðgasi í Evrópu, sem er um fjórfalt hærra en í venjulegu árferði, taki að lækka á næstunni að sögn Kristoffer Bottzauw, framkvæmdastjóra Orkustofnunar Danmerkur.

Sjá einnig: Biðla til fólks að spara orku

„Við vonumst til að fá Dani til að draga úr orkunotkun í þágu buddunnar þeirra, stöðunnar á orkuframboði og áhrifa á umhverfið,“ sagði aðstoðarforstjóri dönsku orkustofnunarinnar. „Við munum ekki þurfa að flytja inn jafn mikið af gasi frá Evrópu ef heimili draga úr orkunotkun.“

Rússland skerti framboð jarðgass til Danmerkur fyrr í ár eftir að danska ríkisfyrirtækið Orsted neitaði að greiða í rúblum. Til stendur kaup á jarðgasi frá Noregi verði aukin með nýrri gasleiðslu í október.