IAG, móðurfélag British Airways (BA), hyggst afla sér 2,75 milljarða evra í gegnum áskriftarútboð (e. rights issue) til að koma félaginu í gegnum heimsfaraldurinn. Félagið tapaði meira en fjórum milljörðum evra á fyrri helmingi ársins, samkvæmt uppgjöri sem birtist í dag.

IAG, sem á einnig flugfélögin IBeria, Aer Lingus og Vueling, hafði þegar tilkynnt um áætlaðar 12 þúsund uppsagnir og að félagið myndi hætta að nota Boeing 747 flugþoturnar .

Kostnaður vegna áhættuvarna á olíuverði og niðurfærslu á virði flota félagsins nam meira en tveimur milljörðum evra á fyrstu sex mánuðum ársins. Farþegafjöldi dróst saman um 98% á öðrum ársfjórðungi samanborið við fyrra ár. Willie Walsh, forstjóri IAG, býst ekki við að flugiðnaðurinn verði búinn að jafna sig á faraldrinum fyrir árið 2023, að því er segir í frétt Financial Times .

Hlutabréf IAG hafa fallið um 8% í dag og um tæplega 74% á árinu. Markaðsvirði félagsins er rúmlega 3,3 milljarðar punda í dag.