Sparisjóðurinn í Keflavík hefur gengið frá kaupum á hlut í Spron Factoring hf. en áður hafði Sparisjóðabanki Íslands hf. selt kröfukaupadeild sína til félagsins í skiptum fyrir hlutabréf. Spron er áfram meirihlutaeigandi í félaginu og lykilstarfsmenn eiga einnig hlut. Agnar Kofoed-Hansen er framkvæmdastjóri Spron Factoring hf. og hjá félaginu starfa 8 starfsmenn.

Spron Factoring hf. sérhæfir sig í fjármögnun reikninga, bæði innlendra og erlendra og tekur að sér umsjón með lánsviðskiptum fyrirtækja þ.m.t. innheimtu, afstemmingu viðskiptamannabókhalds, greiðslutryggingar og tengda þjónustu gagnvart viðskiptavinum og skuldunautum þeirra.

Meðal viðskiptavina Spron Factoring hf. eru fyrirtæki sem vilja auka samkeppnishæfni sína og fá fjármögnun í takt við vöxt. Sparisjóðurinn í Keflavík, Spron og Sparisjóðabanki Íslands hf. sjá sér hag í því að viðskiptavinir þeirra nýti kröfuþjónustu (factoring) Spron Factoring hf. samhliða hefðbundinni bankastarfsemi. Spron Factoring hf. starfar sjálfstætt og óháð annarri starfsemi Spron enda er meirihluti viðskiptavina félagsins í viðskiptum við keppinauta sparisjóðanna á fjármálamarkaðinum.

Spron Factoring hf. er stofnað árið 2000 sem Midt Factoring á Íslandi hf., dótturfélag Midt Factoring A/S og naut þekkingar og styrks frá danska móðurfyrirtækinu. Spron keypti 80% hlut í félaginu í janúar síðastliðnum en hefur nú selt af hlut sínum. Midt Factoring A/S í Danmörku verður áfram hluthafi í félaginu og eiga mann í stjórn þess. Að sögn Agnars hefur félagið vaxið um tæp 30% á ári frá stofnun og rekstrarstaðan er traust.