Greint var frá því í Lögbirtingarblaðinu í gær að lokið hefði verið skiptum á þrotabúi FI fjárfestinga ehf., sem var félag í eigu Hannesar Smárasonar. Engar eignir fundust í búinu en lýstar kröfur námu hins vegar 46,4 milljörðum króna.

Magnús Gunnlaugsson, skiptastjóri þrotabúsins, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að allar eignir hafi verið færðar út úr félaginu fyrir árið 2007 og félagið hafi ekki verið í rekstri árin áður en það fór í þrot. „Það voru allar færslur búnar og farnar eitthvert annað,“ segir hann og því hafi ekki verið eftir neinu að slægjast í þrotabúinu.

„Svo lágu endurskoðendur yfir þessu í bak og fyrir og komu með einhverja punkta, en það var ekki neitt sem hægt var að festa hönd á,“ segir Magnús jafnframt. Bankana og kröfuhafa félagsins verði að spyrjaað því hvers vegna ekki hafi verið gengið að því fyrr.