Breytingar á fyrirkomulagi fasteignalána að undanförnu hafa leitt til aukinna umsvifa á fasteignamarkaði eins og tölur um fjölda fasteignaviðskipta bera með sér. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans. Á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri hefur meðalfjöldi fasteginaviðskipta í viku hverri verið um 280 en áður en bankarnir hófu að bjóða fasteignalán á sambærilegum kjörum og Íbúðarlánasjóður var meðalfjöldi slíkra viðskipta rétt um 180 á viku.

Í Vegvísinum er bent á að mikið hefur verið fjallað um áhrif þessara breytinga á fasteignaverð og hafa flestir gert ráð fyrir því að verð fasteigna myndi hækka mikið í kjölfarið eins og raunin hefur reyndar orðið. "Það eru þó einkum einbýlishús á höfuðborgarsvæðinu sem hækkað hafa í verði, en frá því í júní hefur markaðsverð einbýlishúsa á höfðuborgarsvæðinu hækkað um 10% á sama tíma sem verð fjölbýlishúsa á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um rúm 5% og húsnæði á landsbyggðinni um tæp 3%. Þessi snörpu áhrif á verð einbýlishúsa benda til þess að lágar hámarksupphæðir í gamla íbúðarlánakerfinu (rúmar 9 milljónir) hafi í raun haldið einbýlishúsaverði niðri vegna lánsfjárskömmtunar og því hafi verðið tekið við sér strax og bankarnir buðu upp á rýmri kjör á þessum markaði," segir í Vegvísi Landsbankans.