*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 15. febrúar 2006 15:18

Ekki rætt um að auka hlutafé Pósthússins

Ritstjórn

Að sögn Gunnars Smára Egilssonar, forstjóra Dagsbrúnar, eru engar hugmyndir á borði stjórnenda félagsins á þessari stundu um að auka hlutafé Pósthússins ehf. Eins og kom fram í síðasta Viðskiptablaðið var umtalsvert tap af rekstri Pósthússins á síðasta ári og skýrir það 85 milljóna króna tap hlutdeildarfélaga Dagsbrúnar.

Í viðtali við Viðskiptablaðið sagði Einar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Pósthússins, að eiginfjárstaða fyrirtækisins væri enn jákvæð. Um leið kom fram að litið væri svo á að félagið væri í uppbyggingaferli.

Á fundi með markaðsaðilum í síðustu viku kom fram hjá Viðari Þorkelssyni, fjármálastjóra Dagsbrúnar, að endurskipulagning á rekstri Pósthússins stæði yfir. Afkoma hlutdeildarfélaga Dagsbrúnar er aðallega vegna Pósthússins og Ísafoldarprentsmiðju en síðarnefnda félagið var með jákvæða afkomu á síðasta ári. Á þriðja ársfjórðungi nam hagnaður í afkomu hlutdeildarfélaga rúmlega 24 milljónum króna en á fjórða fjórðungi 2005 nam tap hlutdeildarfélaga 78 milljónum króna sem er töluvert meira en greiningardeild Landsbankans hafði búist við eins og kom fram. Hafði verið gert ráð fyrir jákvæðri afkomu af rekstri þessara fyrirtækja.

Í fréttatilkynningu sem fylgdi ársuppgjörinu kemur fram að tapið skýrist að mestu af taprekstri Pósthússins og brugðist hafi verið við með því að selja rekstur Dreifingarmiðstöðvarinnar og rekstur Vörubíls, jafnframt því sem unnið er að endurskipulagningu dreifikerfis Pósthússins. Greiningardeild Landsbankans bendir á að góðærið sem verið hefur hafði þannig öfug áhrif á afkomu Pósthússins þar sem samningar gerðu ekki ráð fyrir þeirri miklu aukningu sem varð í sölu auglýsinga í Fréttablaðið og þeim fjölmörgu bæklingum sem komu út í nóvember og desember. Burðargeta félagsins var þannig ekki næg til að mæta auknu flæði dreifingarpósts. Að sögn stjórnenda er ljóst að rekstur félagsins verður í járnum á árinu 2006 en muni styrkjast jafnt og þétt eftir því sem einokun á nafnapósti verður aflétt, en það gerist að fullu á árinu 2009.