Samfélagsmiðillinn Facebook hefur verið bannaður í Kína undanfarin ár en þökk séu nýju smáforriti sem skotið hefur upp kollinum í landinu þá gæti síðan verið að lauma sé inn á markaðinn.

Smáforritið er dulbúið sem einhverskonar blöðruleikur og kallast á ensku Colorful Balloons app. Samkvæmt lýsingum sem fylgja forritinu þá á það að virka á svipaðan hátt og Facebook-smáforritið. Erlendir fjölmiðlar hafa fjallað nokkuð um málið og hafa heimildarmenn þeirra staðfest hér sé raunverulega um að ræða smáforrit sem gerir mönnum kleift að notfæra sér Facebook í Kína.

Facebook er langt frá því að vera eini samfélagsmiðilinn sem hefur ekki hlotið náð fyrir augum kínverskra stjórnvalda en það sama má segja um forrit á borð við Snapchat, Pintrest, Twitter og Instagram. Öll hafa þau verið bönnuð í landinu. Þess í stað hafa stjórnvöld sett á laggirnar sína eigin miðla en sem dæmi má nefna þá hefur samfélagsmiðillinn Sina Weibo sömu eiginleika og Twitter.