Vegna breytts verklags við úrvinnslu kaupsamninga hjá Fasteignamati ríkisins urðu mistök við gerð fréttar um fasteignaviðskipti á árinu 2007 sem birtist 28. desember s.l.  Þetta kemur fram í nýrri frétt á heimasíðu Fasteignamatsins en á þessa skekkju var bent í Viðskiptablaðinu í gær.

Í frétt Fasteignamatsins kemur fram að vantaldir voru kaupsamningar um fasteignir sem eru óbyggt land og jarðir.  Um var að ræða fyrirspurnarvillu í gagnagrunn vegna þess að frá og með árinu 2007 miðast fjöldi og velta slíkrar upplýsingavinnslu við þinglýsingardag kaupsamnings en ekki kaupdag eins og árin þar áður. Fasteignamat ríkisins harmar þessi mistök.

Í leiðréttri útgáfu fréttarinnar kemur fram að um 15.300 kaupsamningum var þinglýst árið 2007 og námu heildarviðskipti með fasteignir tæplega 410 milljörðum króna, sem er mesta velta á fasteignamarkaði á Íslandi á einu ári. Meðalupphæð á hvern kaupsamning var um 26,7 milljónir króna. Árið 2006 var veltan 272 milljarðar króna, fjöldi kaupsamninga tæplega 11.900 og meðalupphæð á hvern kaupsamning um 23 milljónir króna. Heildarvelta fasteignaviðskipta hefur því aukist um 50% á milli ára og kaupsamningum fjölgað um tæplega 30% Sé litið til höfuðborgarsvæðisins var heildarupphæð þinglýstra kaupsamninga um 310 milljarðar króna, fjöldi kaupsamninga var um 10.100 og meðalupphæð kaupsamnings var tæplega 31 milljón króna. Heildarupphæð þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2006 var rúmlega 200 milljarðar króna og fjöldi kaupsamninga tæplega 7.500. Meðalupphæð samninga var um 27,5 milljónir króna.