José Graziano da Silva, framkvæmdastjóri Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), gerði loftslagsbreytingar að umtalsefni sínu á árlegri ráðstefnu FAO um fiskveiðar. Þetta kemur fram á vef FAO.

Da Silva talaði um nauðsyn þess að beita öllum mögulegum aðgerðum til að bregðast við ógnum við sjálfbærar fiskveiðar og fiskistofna. Fiskveiðar væru í dag orðin mikilvægur þáttur í fæðuöryggi heimsins og þá væru strand- og eyríki sérstaklega háð fiskveiðum. Ofveiði, mengun og loftslagsbreytingar ógna fæðuöryggi þessara ríkja í sifellt meira mæli og við því þurfi að bregðast.

Hann sagði einnig að fiskur væri uppspretta um 17% af því dýrapróteini sem fólk innbyrðir og allt upp í 50% á sumum svæðum. Þá veltur lífsafkoma 12% íbúa heims á þessari atvinnugrein.

Samkvæmt nýlegri skýrslu Matvælastofnunarinnar hefur fiskneysla aukist mjög á síðustu árum og áratugum. Þannig hefur fiskneysla á hvern íbúa heimsins aukist úr 10 kg árið 1960 upp í 19 kg árið 2012. Neysla jarðarbúa á fiskiafurðum hefur þvi nánast tvöfaldast á síðustu 50 árum.