Hávaxtamyntir lækkuðu mikið á gjaldeyrismörkuðum í gær sökum vaxandi áhættufælni fjárfesta sem færa sig nú í auknum mæli yfir í öruggari myntir á borð við Bandaríkjadal, á meðan ekkert lát virðist vera á þeirri óvissu og umróti sem hefur verið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, sem rekja má til vanskila tengdum áhættusömum fasteignalánum (e. subprime-mortgage) í Bandaríkjunum.

Samhliða því að hávaxtamyntir veiktust verulega - meðal annars nýsjálenski og ástralski dollarinn, tyrkneska líran, suðurafríska randið, brasilíska realið og íslenska krónan - þá styrktist gengi lágvaxtamynta mikið, til dæmis japanska jensins og svissneska frankans. Bloomberg fréttaveitan greinir frá því að jenið hafi hækkað um 0,3% gagnvart Bandaríkjadal og 0,6% gagnvart evrunni og það hafi ekki verið sterkara síðan í byrjun aprílmánaðar.

Þrátt fyrir þann mikla óróa sem einkennt hefur alþjóðlega fjármagnsmarkaði síðustu vikur þá hafa nýmarkaðir (e. emerging markets) engu að síður ekki orðið fyrir jafn miklum áföllum og margir höfðu gert ráð fyrir. Sérfræðingar telja hins vegar að nú muni verða breyting þar á, sem muni leiða til þess að fjárfestar veigri sér við því að fjárfesta á slíkum mörkuðum. Þetta kemur meðal annars fram í minnisblaði sem Timothy Ash, helsti sérfræðingur bandaríska fjármálafyrirtækisins Bears Stearns, sendi til viðskiptavina í gær. Það sem helst stýrir þessari atburðarrás eru snarpar lækkanir á verðbréfamörkuðum og vaxandi áhættufælni, að sögn Ash, og mun sú þróun einkum hafa áhrif á tyrknesku líruna, ekki síst þegar við bætist sú pólitíska óvissa sem ríkir vegna fyrirhugaðs forsetakjörs þar í landi.

Hin "alræmda óstöðuga íslenska króna"
Í byrjun vikunnar stóð gengi lírunnar gagnvart Bandaríkjadal í 1,295 en fór upp í 1,342 stuttu áður en markaðir lokuðu í Istanbúl í gær og nam veikingin því samtals um 2,7%. Gjaldmiðill Suður-Afríku lækkaði sömuleiðis um 3% gagnvart Bandaríkjadal í vikunni. Í frétt Dow Jones-fréttaveitunnar er auk þess bent á að sama þróun eigi sér stað þegar horft er til ungversku forintunnar, slóvakísku krónunnar og hinnar "alræmdu óstöðugu íslensku krónu", en hún veiktist um tæplega eitt prósent í gær; mest var lækkunin gagvart jeninu, eða sem nam um 2%. AIG-vísitalan sem fylgist með gengisþróun 19 gjaldmiðla nýmarkaðsríkja hefur lækkað skarpt í vikunni.

Dow Jones hefur eftir sérfræðingum franska bankans BNP Paribas að enda þótt ljóst sé að fjárfestar eigi eftir að fylgjast náið með þróun gjaldmiðla á nýmörkuðum á næstu misserum í von um að hagstæð kauptækifæri skapist, þá hvetur bankinn aftur á móti fjárfesta til þess að sýna fyllstu varkárni gagnvart slíkum kaupum - að minnsta kosti þangað til það fari að draga úr óvissunni á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Það verður ekkert lát á "mikilli eftirspurn eftir lágvaxtamyntum" á næstu misserum, að mati sérfræðings franska bankans í London.

Sumir greiningaraðilar höfðu spáð því í lok síðustu viku að flótti fjárfesta úr hávaxtamyntum yfir í lágvaxtamyntir myndi fara minnkandi þegar markaðir opnuðu eftir helgi. Þetta var meðal annars mat Danske Bank, en í samtali við Dow Jones segir Teis Knuthsen, sérfræðingur í greiningardeild bankans, að þeir hafi haft rangt fyrir sér í þeim efnum; áhættufælni fjárfesta muni þvert á móti halda áfram að aukast. Knuthsen bætti því jafnframt að það væri ekki lengur hægt að vísa á bug athugasemdum þeirra sem halda því fram að um sé ræða "raunverulega fjármálakreppu" um þessar mundir.

En það voru fleiri myntir en gjaldmiðlar nýmarkaðsríkja sem veiktust í gær. Breska pundið fór undir tvo Bandaríkjadali í fyrsta skipti frá því síðastliðinn júní, eftir að hafa einnig veikst í viðskiptum á þriðjudaginn þegar fréttir bárust af því að verðbólga hefði lækkað verulega í síðasta mánuði og þar með dregið verulega úr líkunum á því að Englandsbanki hækki hjá sér stýrivexti á árinu. Dustin Reed, gjaldeyrissérfræðingur hjá hollenska bankanum ABN Amro, segir að sökum þessa sé ólíklegt að pundið eigi eftir ná sínum fyrri styrk á næstunni.