Evrópsk flugfélög fluttu rúmlega 420 milljónir farþega á síðasta ári, eða um 40% fleiri farþega en árið 2001. Segja sérfræðingar að aukninguna megi að miklu leyti rekja til lággjaldaflugfélaganna.

Fyrir tilvist lággjaldaflugfélaga var fjöldi komufarþega Standsted-flugvallar 3,9 milljónir en í fyrra hafði fjöldinn margfaldast í 22,2 milljónir. Það sama hefur gerst víðar um Evrópu og borgir, sem áður var erfitt var að ferðast til, laða nú að sér þúsundir ferðamanna á ári hverju. Til dæmis hefur fjöldi komufarþega Riga-flugvallar í Lettlandi meira en tvöfaldast á fimm árum í 1,9 milljónir úr 712 þúsundum.

Ákvörðun lággjaldaflugfélaga um að fljúga á nýjan áfangastað hefur mikil áhrif á hagkefið á svæðinu í kringum flugvöllinn. Og oftar en ekki hækkar fasteignaverð í kjölfarið vegna aukins kaupmáttar og aukinnar eftirspurnar eftir sumarhúsnæði, sérstaklega sunnarlega í álfunni. Lággjaldaflugfélög hafa einnig átt stóran þátt í því að opna Evrópu, brjóta niður menningarmúra og skapað aukinn fjölda viðskiptatækifæra.

"Kerfiskarlar í Brussel hafa verið að blaðra um aukna samheldni og sameiningu í Evrópu í ár og aldir," segir Michael O'Leary, forstjóri írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair. "En það hafa verið lággjaldaflugfélgögin sem hafa komið þeirri þróun áleiðis."

Ekki lengur munaður

Lengi vel þótti það munaður að ferðast með flugvélum innan Evrópu en nú er ekki ólíklegt að hægt sé að kaupa flugmiða fram og til baka frá Englandi til Ítalíu fyrir um 40 pund, eða rúmlega fimm þúsund krónur, sem er svipað og að taka leigubíl á flugvöllinn.

Bretar fljúga nú til Tékklands til að fara í ódýrar lýtaaðgerðir, írskir fasteignabraskarar ferðast til Eistlands til að gera góð kaup og lettneskir byggingarverkamenn ferðast til Dublin til að koma til móts við aukna eftirspurn eftir ódýru vinnuafli. Pólskir læknar og hjúkrunarkonur fljúga svo yfir til Bretlands þar sem töluverður skortur er á starfsfólki í heilbrigðisgeiranum.

En lækkun ferðakostnaðar með lággjaldaflugfélögum hefur einnig gert fólki kleift að vinna í einu landi og búa í öðru. Svíinn Hermann Bynke á og rekur breska tölvu- og tæknifyrirtækið Hela Ltd. Eftir að Ryanair fór að fljúga beint til Gautaborgar frá London ákvað Bynke að flytja aftur heim. Hann ferðast nú á milli aðra hvora viku og þrigga tíma ferðalag frá heimili hans á skrifstofuna kostar um sex þúsund íslenskar krónur. "Nú get ég eytt meiri tíma með fjölskyldunni, sett meira til hliðar og lífsgæðin eru meiri í Gautaborg en í London," segir Bynke í samtali við bandaríska tímaritið Business Week.

Ryanair var eitt af fyrstu lággjaldaflugfélögunum. Írska flugfélagið hóf flug á milli Bretlands og meginlands Evrópu árið 1997 og hélt niður verðinu með því að fljúga til minni borga og smærri flugvalla, þar sem flugvallaskattar eru miklu lægri en á flugvöllum í stórborgum. Bandaríska flugfélagið Southwest Airlines var einna fyrst allra flugfélaga sem studdist víð slíkt viðskiptamódel.

Nú er Ryanair stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu og flýgur félagið til 334 áfangastaða í 23 löndum. Samkvæmt spám svissneska fjárfestingabankans UBS mun hagnaður félagsins fyrir skatta hækka um 6% á árinu 2006 í tæpa 30 milljarða íslenskra króna og gert er ráð fyrir að sölutekjurnar verði í kringum 150 milljarðar króna. Og reiknað er með að flugvélafloti Ryanair, sem telur 150 flugvélar, muni flytja 42 milljónir farþega á árinu, sem er meira en British Airways.

Fánaflugfélögin (e. flag carriers), eins og British Airways, Air France og Lufthansa, hafa lækkað verðið á sínum flugleiðum innan Evrópu til að mæta aukinni eftirspurn og segja sumir sérfræðingar að samkeppnin eigi eftir að harðna enn frekar og verða til samþjöppunar á flugmarkaði í Evrópu.

Íslendingar umsvifamiklir í flugrekstri

Íslensk fyrirtæki eru orðin umsvifamikil í flugrekstri í Evrópu. FL Group, eignarhaldsfélag Icelandair, samþykkti að kaup danska lággjaldaflugfélagið Sterling Airlines, sem varð til við sameiningu Sterling og keppinautarins Mærsk Air. Bæði flugfélögin voru í eigu eignarhaldsfélagsins Fons, sem er stjórnað af Pálma Haraldssyni og Jóhannesi Kristinssyni.

Fons er svo stærsti einstaki hluthafinn í sænska lággjaldaflugfélaginu FlyMe, með um 20% hlut, og stærsti hluthafinn í sænsku netferðaskrifstofunni Ticket Travel, með rúmlega 28% hlut. Fons keypti einnig nýverið dönsku ferðaskrifstofuna Hekla Reisjer. Flutningasamstæðan Avion Group, sem er að mestu leyti í eigu Magnúsar Þorsteinssonar, rekur breska leiguflugfélagið Excel Airlines og Atlanta.

FL Group var einnig stærsti einstaki hluthafinn í breska lággjaldaflugfélaginu easyJet, en félagið seldi 16,9% eignarhlut sinn í apríl síðastliðnum og nam söluhagnaðurinn af fjárfestingunni um 13 milljörðum króna. FL Group á einnig rúmlega 10% hlut í finnska fánaflugfélaginu Finnair, en finnska ríkið er stærsti hluthafinn. FL Group stefnir á skráningu Icelandair á hlutabréfamarkað nú í vor, en verður þó áfram kjölfestufjárfestir í félaginu.

Fyrsta íslenska lággjaldaflugfélagið, Iceland Express, var svo stofnað árið 2003 og hóf félagið flug til Kaupmannahafnar og London þann 23. febrúar það sama ár. Nýlega hóf flugfélagið að fljúga til Frankfurt Hahn í Þýskalandi og flug til Alicante, Berlínar, Friedrichshafen, Gautaborgar og Stokkólms hefst þann 16. maí.