Ásberg Jónsson stofnaði ferðaþjónustufyrirtækið Nordic Visitor árið 2001 og hefur vöxtur þess verið gríðarlegur frá stofnun. Hann segir að ef rétt sé haldið á spilunum geti ferðamönnum á Íslandi enn fjölgað umtalsvert á næstu árum. Með fyrirhyggju geti Ísland tekið á móti meira en tveimur milljónum ferðamanna á ári og vísar hann m.a. til Skotlands, sem fær heimsóknir frá 15 milljónum ferðamanna á ári. Hann segir fjölgun ferðamanna ekki vera áhyggjuefni heldur áskorun.

„Það eru bara nokkur ár síðan við fórum að taka ferðaþjónustu alvarlega þó svo að hún sé í dag stærsta atvinnugreinin í heiminum. Árlega ferðast 1,2 milljarðar manna um heiminn en við erum einungis að fá einn af hverjum þúsund ferðamönnum. Í ljósi sérstöðu okkar tel ég að við eigum mikið inni,“ segir Ásberg.

Hann skilur vel að íslenska þjóðin finni fyrir ákveðnum vaxtarverkjum vegna fjölgunar ferðamanna. Ekki megi þó gleyma þeim mikla ábata sem fylgi komu þeirra. Bæði séu tekjur samfélagsins umtalsverðar og ekki síður myndi komur þeirra grundvöll fyrir þjónustu sem bæti lífsgæði Íslendinga um allt land. Nefnir hann bættar samgöngur, aukna afþreyingu og veitingastarfsemi sem dæmi.

„Fjárfesting í innviðum ferðaþjónustu er þjóðhagslega arðbær og því mikilvægt að sinna henni vel til að auka enn tekjur samfélagsins um leið og við verndum náttúru okkar og ímynd.“

Þegar rætt er um að leggja aukinn skatt á ferðaþjónustu verður að horfa til þess að hún er í dag eina gjaldeyrisskapandi atvinnugreinin sem greiðir virðisaukaskatt. „Stóriðjan og sjávarútvegurinn gera það til dæmis ekki,“ bendir Ásberg á.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .