*

sunnudagur, 25. ágúst 2019
Innlent 4. apríl 2018 14:41

Fjórðungur veltu á landsbyggðinni

Velta fasteigna utan höfuðborgarsvæðisins námu um þriðjungi þeirrar upphæðar sem velt var í borginni í marsmánuði.

Ritstjórn
Langmestu fasteignaviðskiptin á Vestfjörðum voru á Ísafirði, en minnst velta var í þinglýstum kaupsamningum í landshlutanum.
Haraldur Guðjónsson

Heildarvelta þinglýstra fasteignaviðskipta utan höfuðborgarsvæðisins í marsmánuði nam um 9.560 milljónum íslenskra króna að því er Þjóðskrá hefur tekið saman. Um er að ræða samtals 322 samninga, þar af 139 eignir í fjölbýli en 134 í sérbýli.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um nam heildarveltan á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma ríflega 27 milljörðum króna í 623 kaupsamningum.

Ríflega 80% viðskiptanna á Akureyri

Mest velta í þinglýstum fasteignaviðskiptum utan höfuðborgarsvæðisins var á Norðurlandi eða fyrir 2.893 milljónir króna en í heildina voru gerðir 101 samningur í landshlutanum í mars. Meðalveltan á íbúð í landshlutanum nam 28,6 milljónum króna en 64 af samningunum voru um eignir í fjölbýli en 25 um eignir í sérbýli og 12 samningar um annars konar eignir.

Langflestar, eða 80 af samningunum voru gerðir um eignir á Akureyri, þar af 56 um fjölbýli, og 17 um sérbýli. Heildarveltan í bænum nam 2.430 milljónum króna og meðalveltan á samning var 30,4 milljónir króna.

Ríflega 2 milljarða viðskipti

Næst flestir samningar voru gerðir á Suðurlandi en veltan þar nam 2.042 milljónum króna í 69 þinglýstum samningum, og var meðalupphæðin á hvern samning því 29,6 milljónir króna. Flestar eignirnar voru í sérbýli, eða 34, 11 um eignir í fjölbýli og 24 um annars konar eignir.

Ríflega helmingur samninganna, eða 35 voru um eignir á Árborgarsvæðinu, þar af voru 23 um eignir í sérbýli og 6 í fjölbýli.

Hærra meðalverð á Reykjanesi

Næst mestu viðskiptin voru hins vegar á Reykjanesi en heildarvelta viðskiptanna nam 2.170 milljónum króna. Þar sem einungis var um tveimur færri samninga að ræða en á Suðurlandi var meðalupphæðin á samning þar 32,9 milljónir króna.

51 af þessum 67 samningum voru um eignir í Reykjanesbæ, þar af 29 um eignir í fjölbýli en 19 um eignir í sérbýli. Ef horft er á svæðið í heildina voru fleiri samningar um eignir í sérbýli eða 32 á móti 31 í fjölbýli.

Um þriðjungur utan Akraness

Næst í röðinni í fjölda samninga og heildarveltu var Vesturland með 38 samninga og 1.343 milljóna veltu. Meðalveltan nam 35,3 milljónum króna á samning, en af þeim voru 17 um sérbýli og 16 um fjölbýliseignir.

Um 63% eignanna, eða 24 voru á Akranesi, þar af 12 um eignir í fjölbýli, 10 í eignir í sérbýli. Heildarveltan í sveitarfélaginu nam 910 milljónum króna og var meðalupphæðin á samning 37,9 milljónir króna.

Einungis þriðjungur í stærsta sveitarfélaginu

Austurland kom þar á eftir með 30 samninga og 856 milljóna króna veltu. Meðalupphæð á samning á Austurlandi var um 28,5 milljónir króna en 20 af samningunum voru um sérbýliseignir og 7 um eignir í fjölbýli.

Rétt rúmlega þriðjungur samninganna eða 11 þeirra voru gerðir í Fjarðabyggð, en þar af einungis einn um fjölbýliseign, hinar voru um sérbýli. Heildarveltan í bænum nam 312 milljónum króna og var meðalupphæð á samning um 28,4 milljónir króna.

Meirihluti í fjölbýli á Vestfjörðum

Á Vestfjörðum var þinglýst 17 samningum fyrir 256 milljónir króna, og var meðaluppæð á samning 15 milljónir króna. 10 þeirra voru um eignir í fjölbýli en 8 þeirra voru á Ísafirði.

Í landshlutanum voru 6 samningar gerðir um eignir í sérbýli, þar af 2 á Ísafirði. Heildarveltan í bænum nam 180 milljónum króna og meðalupphæð á samning nam 18 milljónum króna.