Francois Hollande, forseti Frakkklands, er sagður leita leiða til að laða erlenda fjárfesta til landsins. Breska viðskiptablaðið Financial Times segir á vef sínum forsetann meira að segja draga til baka yfirlýsingar sínar um boðaðar skattahækkanir á árinu og lækka fjármagnstekjuskatt. Þá fundar Hollande við frumkvöðlum og fjárfestum sem fjármagna rekstur sprotafyrirtækja í dag en hann er sagður vilja höfða sérstaklega til þeirra með ýmis konar ívilnunum.

Blaðið segir skattahækkanir Hollande ekki hafa farið vel í forystumenn í frönsku viðskiptalífi en samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins hyggst ríkisstjórnin sækja sér 20 milljarða evra með þessum hætti.

Blaðið segir að á meðal ívilnana fyrir fjárfesta sé um 40-50% skattaafsláttur fyrir þá sem kaupi hlutabréf í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og haldi þeim í átta ár. Þá hefur blaðið heimildir fyrir því að í bígerð sé að búa til hraðbraut fyrir frumkvöðla inn í Frakkland, greiða götu þeirra þar með ýmsu móti og gera þeim sem hafi farið með rekstur sinn á hliðina auðveldara um vik að fóta sig á ný.