Jón Magnús Kristjánsson framkvæmdastjóri Icelandic Japan og Marinus Seafood ehf, dótturfyrirtækja Icelandic Group hf, hefur ákveðið að láta af störfum.

Við tekur Jónas Engilbertsson samkvæmt tillögu Jóns Magnúsar um eftirmann sinn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu en þar segir að þeir hafi unnið saman undanfarin ár og náð góðum árangri í rekstri félaganna.

Undanfarin misseri hefur Jónas unnið að uppbyggingu á aðfangaöflun og framleiðslu fyrir Japansmarkað. Að sama skapi hefur Jónas annast kynningu á félaginu á mörkuðum annars staðar en í Austurlöndum fjær og hefur megináherslan verið á Evrópu.

Marinus er markaðs- og aðfangafyrirtæki sem ber meðal annars ábyrgð á öflun aðfanga fyrir Japansskrifstofu Icelandic. Marinus er einnig í miklum viðskiptum við Kína og önnur lönd í Austurlöndum fjær.  Fyrirtækið er með höfuðstöðvar í Korngörðum í Reykjavík.

„Ég hef starfað í 21 ár hjá fyrirtækinu og hef borið ábyrgð á markaðsstarfi í Asíu í langan tíma og var meðal annars búsettur í Japan í sjö ár. Þetta hefur verið skemmtilegur en krefjandi tími,“ segir  Jón Magnús Kristjánsson fráfarandi framkvæmdastjóri í tilkynningunni.

„Ég er þakklátur öllum þeim góðu innlendu og erlendu birgjum og þeim traustu viðskiptavinum sem við höfum átt góð viðskipti við í gegnum árin. Nú ætla ég að huga meira að fjölskyldunni og kveð Icelandic Japan og Marinus í fullri sátt . Fyrirtækin sem ég hef veitt forstöðu hafa átt því láni að fagna að hafa gott og reynslumikið starfsfólk sem reynast mun þeim vel um ókomna framtíð. Ég veit að Jónas er mjög góður kostur til að halda áfram rekstri félagsins. Ég mun starfa með honum fyrstu mánuðina eins og þurfa þykir. Ég er ekki að fara í samkeppni við Icelandic Group og kveð sáttur og jafnframt stoltur yfir sterkri stöðu okkar á Asíumarkaði. Ég óska samstarfsfólki mínu hjá Icelandic alls hins besta í framtíðinni.“

Jónas Engilbertsson framkvæmdastjóri Marinus ehf segir í tilkynningunni að hann sé að takast á við spennandi verkefni.

„Ég hef undanfarin ár unnið náið með Jóni Magnúsi. Sá tími hefur verið afar spennandi og það var lærdómsríkt að vinna með manni eins og honum sem leitt hefur fyrirtækið farsællega í langan tíma. Mitt markmið verður að stækka og efla félagið enn frekar á núverandi mörkuðum og ná fótfestu víðar,“ segir Jónas í tilkynningunni.

Jónas Engilbertsson hefur undanfarin tvö ár starfað sem sölustjóri Marinusar. Frá árinu 2001 var hann innkaupastjóri Icelandic Germany. Jónas tók þátt í að stofna dótturfyrirtæki Icelandic í Kína og áður hafði hann komið á laggirnar og rekið dótturfyrirtæki SH í Úganda. Jónas býr yfir mikilli reynslu á sviði alþjóðlegra viðskipta í sjávarútvegi.

Jónas er kvæntur Lilju Benónýsdóttur og eiga þau þrjú börn.