Rússneskir leiðangursmenn gera sig líklega til þess að senda kafbáta að sjávarbotni Norðurskautsins vegna rannsókna auk þess sem þeir hyggjast gera tilkall til svæðisins og undirstrika það með táknrænum hætti, en skilið verður eftir hylki með rússneska fánanum á botninum.

Talið er að hafsbotninn á Norðurskautssvæðinu sé ríkur af olíulindum og málmgrýti. Rússnesk yfirvöld segja leiðangurinn bæði "áhættusaman og hetjulegan" og jafna honum við að takast að flagga þjóðfána á tunglinu. Um er að ræða fyrstu mönnuðu ferðina að hafsbotni á Norðurheimskautinu. Auk táknræns tilgangs leiðangursmanna hyggjast þeir stunda rannsóknir á hafsbotninum og prófa nýjan hátæknibúnað sem hefur verið þróaður með hliðsjón að nýtingu olíulinda sem finnast við slíkar aðstæður. Hættulegasti hluti leiðangursins er sagður vera að koma mannaða kafbátnum til baka frá hafsbotni en hann verður að lenda á nákvæmlega sama stað ellegar er hætta á að hann festist undir ísnum.

Væntingar um bráðnun íss vegna hlýnunar loftslags hafa gert það að verkum að ríki á Norðurskautssvæðinu huga að tækifærum sem henni kann að fylgja og útlit er fyrir harða samkeppni þeirra milli um nýtingarrétt á þeim auðævum sem kunna að finnast á sjávarbotni. Valdímír Pútín, Rússlandsforseta, hefur verið tíðrætt um nauðsyn þess að Rússar tryggi "strategíska, efnahagslega, vísindalega og varnarhagsmuni á svæðinu."

Leiðangrinum er meðal annars ætlað að styrkja tilkall Rússa til Lomonosov-hryggjarins, en það er gríðarstór neðansjávarfjallgarður sem nær allt frá Grænlandi til Síberíu. Rússar byggja tilkall sitt á þeirri röksemd að það sé í raun framlenging á þeirra landgrunni. Auka má efnahagslögsögu ríkis geti það fært sönnur á að landgrunnið sem sóst er eftir sé svipaðrar gerðar og eigið landgrunn.

Kanadísk, bandarísk og dönsk stjórnvöld hafa jafnframt gert tilkall til svæðisins en jarðfræðingar telja að hugsanlega megi finna þar milljarða fata af olíu. Rússnesk stjórnvöld gerði fyrst tilkall til svæðisins árið 2002 en hafréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hafnaði því á þeim grundvelli að ekki væru nægjanleg rök fyrir tilkallinu.

Þrátt fyrir að sérfræðingar telji kostnað við að nýta olíu sem kann að finnast á hafsbotni undir Norðurskautssvæðinu vera stjarnfræðilegan og gera að verkum að slík nýting sé með öllu óraunhæf næstu áratugina hafa stór olíufélög tekið sér stöðu í kapphlaupinu um að fá nýtingarrétt í framtíðinni. Til að mynd hefur BP myndað bandalag með rússneska ríkisolíufélaginu Rosneft um nýtingu svæðisins.

Norðurskautssvæðið er skilgreint sem einskis manns land og fara því Sameinuðu þjóðirnar með umsjá þess.