*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 4. júlí 2020 15:04

Gagnrýna útboð Strætós

Hópferðaleyfishafar gagnrýna harðlega vinnubrögð Strætó bs. í tengslum við útboð ferðaþjónustu fatlaðra.

Magdalena A. Torfadóttir
Samtök ferðaþjónustunnar lögðu til að tilboðsfresti yrði seinkað um eitt ár en Strætó bs. varð ekki við beiðninni.

Nýverið tók Strætó bs. þá ákvörðun að samþykkja tilboð Hópbíla hf. um að annast akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu að Hafnarfirði og Kópavogi undanskildum. Tilboð Hópbíla hljóðaði upp á 4,2 milljarða til fjögurra ára en tilboð þeirra var næsthæsta tilboðið. Framkvæmdastjórar Teits Jónassonar og Snælands Grímssonar gagnrýna vinnubrögð Strætó harðlega og gagnrýna sérstaklega hversu stuttur fyrirvari hafi verið gefinn.

Haraldur Teitsson, framkvæmdastjóri Teits Jónassonar og formaður Félags hópferðaleyfishafa, segir að framkvæmd útboðsins hafi vægast sagt verið óeðlileg. „Við höfum fengið að heyra frá mörgum af okkar félagsmönnum að þeim hafi fundist þetta undarlegt. Þetta var þannig að það voru sex aðilar að bjóða í þetta sem hafa allir verið að vinna fyrir Strætó í sambærilegum flutningum. Þannig að það er fremur óeðlilegt að þeir hafi ákveðið að taka næsthæsta tilboðinu sem kom frá Hópbílum,“ segir Haraldur og bætir við að hann sé mjög hissa á því hversu lítill fyrirvari hafi verið gefinn. „Þetta eru mjög skrýtin vinnubrögð, það verður að segjast alveg eins og er. Nágrannasveitarfélögin Kópavogur og Hafnarfjörður eru búin að bjóða út sambærilegan rekstur og í þeim útboðum var gefinn 6-8 mánaða fyrirvari fyrir lægstbjóðanda að útvega sér tæki en í tilfelli Reykjavíkurborgar voru þetta bara nokkrar vikur,“ segir Haraldur og bætir við að þetta sé ekki í fyrsta skiptið sem útboð hjá Strætó hafi verið með óeðlilegum hætti.

„Þetta er ekki fyrsta og eina útboð Strætó sem er búið að vera mjög undarlegt ef við lítum til dæmis á útboðið sem framkvæmt var árið 2012 þá var það fremur óeðlilegt.“

Haraldur segir jafnframt að ferðaþjónusta fatlaðra sé einstaklega viðkvæm þjónusta og því beri að standa að henni með fagmannlegum hætti. „Þetta er mjög viðkvæm þjónusta og þess vegna hefði átt að standa að þessu útboði með fagmannlegri hætti heldur en gert var, til dæmis að gefa meiri fyrirvara. Það var algjör óþarfi að standa að þessu útboði með þessum hætti því allir þessir aðilar sem buðu í hafa áður sinnt verkefnum fyrir Strætó. Síðan er það líka skrýtið að bjóða upp á að nota gamla bíla eitt árið og síðan koma með mjög harðar kröfur um að bílarnir skulu vera nýir.“

Samtök ferðaþjónustunnar hafa auk þess gagnrýnt framkvæmdina og hafa sent inn álit til innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar þess efnis að fyrirvarinn sem gefinn hafi verið hafi verið alltof stuttur sérstaklega í ljósi COVID-19 heimsfaraldursins. Lögðu samtökin til að tilboðsfresti yrði seinkað um eitt ár. Strætó bs. varð ekki við beiðninni og vísaði til útboðsreglna sem kröfðust þess að útbjóðendur hefðu 25 bíla sem væru sérútbúnir og yrðu að vera til 1. júlí og 45 sérútbúnir bílar yrðu að vera tilbúnir 1. september. Þá geti bjóðandi til bráðabirgða notast við bifreiðar sem fullnægja ekki kröfum útboðsskilmála um lyftubúnað og myndavélakerfi til og með 30. júní 2021.

Viðskiptablaðið hafði samband við Guðjón Ármann Guðjónsson, framkvæmdastjóra Hópbíla, en hann vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

„Mjög undarlega að þessu staðið“

Hallgrímur Lárusson, framkvæmdastjóri Snælands Grímssonar, segir að vinnubrögðin sem viðhöfð voru í tengslum við útboðið haldi engu vatni. „Mér þykir mjög undarlega að þessu staðið og margt við þetta sem er bara ekki í lagi. Það að ógilda fjögur lægstu tilboðin án þess að tala við viðkomandi aðila sem eru að bjóða í verkið og svo það að bjóða þetta út með svo litlum fyrirvara og upplýsa síðan um niðurstöðu útboðs rétt rúmri viku áður en akstur hefst.“ Hann bætir við að Snæland Grímsson búi yfir mikilli starfsreynslu og hafi gott orðspor í farþegaflutningum.

„Þarna er á ferðinni mjög stórt útboð og okkar tilboð hljóðaði upp á 750 milljónir á ársgrundvelli. Það gefur auga leið að það er enginn að fara að kaupa sér bílaflota sem kostar 400 milljónir nema þeir þurfi á því að halda. Eins og útboðinu var stillt upp þá var aðeins eitt fyrirtæki sem átti séns og það voru Hópbílar.“

Hallgrímur segir jafnframt að Strætó hafi áður tekið Hópbíla fram yfir aðra í útboðum. „Það sem ég undra mig hvað mest á það er að það var opnað fyrir tilboð 7. maí en þeir töluðu aldrei við okkur.“ 

„Við vönduðum til verka“

Erlendur Pálsson, sviðsstjóri farþegaþjónustu hjá Strætó bs., segir að afar fagmannlega hafi staðið að útboðinu og mikill tími hafi farið í að fara yfir allar hliðar málsins. „Við vönduðum til verka og fórum yfir allar lögfræðilegar hliðar málsins þess vegna vorum við svona lengi að ákveða þetta,“ segir Erlendur og bætir við að um sé að ræða lögbundna þjónustu sem aldrei megi stoppa. „Þetta er einfaldlega það viðkvæm þjónusta að við megum ekki taka neina áhættu með hana. Við þurftum einfaldlega að hafna þessum fjórum lægstu tilboðum vegna þess að þau uppfylltu ekki þær kröfur sem við gerðum til bílanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Strætó bs.