Kvikmyndagerðarmaðurinn Garðar Stefánsson vinnur nú að heimildarmynd um eitt vinsælasta umræðuefni þjóðarinnar. Vinnuheiti myndarinnar er lýsandi en myndin gengur undir nafninu „Íslenska krónan“. Garðar hefur unnið handritið með Atla Bollasyni en báðir búa þeir erlendis. „Handrit myndarinnar er hér um bil frágengið og núna erum við að hefja viðræður við mögulega sýningaraðila. Við höfum þegar tekið upp töluvert af efni myndarinnar,“ segir Garðar og bætir við að þó handrit sé nú nánast tilbúið er vinnsla enn á frumstigi.

Garðar segist gera sér grein fyrir að viðfangsefnið sé ekki einfalt. En myndin eigi að vera fyrir alla. „Ég veit að það er erfitt að fara djúpt í þetta efni á sama tíma og hún á að vera aðgengileg öllum. En okkar pæling er að nálgast þetta eins og Jamie Oliver, sem eldar flókna rétti á einfaldan hátt.“ Sjálfur lauk Garðar grunnnámi í hagfræði en stundar nú framhaldsnám í hagnýtri menningarmiðlun í Danmörku. Hann segir að fólk þurfi ekki að óttast þurra nálgun á viðfangsefnið.

Myndinni um íslensku krónuna verður skipt í þrjá hluta. „Í fyrsta og öðrum hluta skoðum við hlutverk peninga í sögulegu samhengi og útskýrum helstu hugtök hagfræðinnar. Þriðji hlutinn fjallar um stöðu íslensku krónunnar í dag. Hvert stefnum við og hvaða möguleikar eru í boði,“ segir Garðar. „Þar skoðum við hvað það felur í sér að halda sama gjaldmiðli og hvað breytingu það myndi hafa í för með sér fyrir almenning í landinu að taka upp til dæmis evru.“