*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 8. febrúar 2006 20:59

Gæði og styrkur íslensku bankanna mikill

en eru viðkvæmir fyrir þjóðhagslegum þáttum, segir Fitch Ratings

Ritstjórn

Íslenska bankakerfið er meðal þeirra sex sem eru í hæsta áhættuflokki þegar kemur að mati á viðkvæmni fyrir þjóðhagslegum þáttum, segir í nýlegri skýrslu um áhættu bankakerfa sem Fitch Ratings gerði nýverið.

Matsfyrirtækið gefur Íslandi einkunnina MPI 3 í þessum þætti athugunarinnar, segir greiningardeild Landsbanka.

Ísland er talið öfgakenndasta tilfellið, í þessum lið, og lækkar um einn styrkleikaflokk frá síðustu könnun.

Matsfyrirtækið telur gæði og innri styrk íslensku bankanna mikinn og er eina landið sem færist upp um flokk, hvað þennan lið varðar. Síðast höfðu íslensku bankarnir einkunina B/C en eru nú með einkunina B.

Helsta ástæðan fyrir því er aukin tekjudreifing bankanna, sem stafar af aukinnar starfsemi erlendis sem og innkomnu bankanna á húsnæðislánamarkaðinn.

Gæði og innri styrkur íslensku bankanna gerir þá betur í stakk búna til að takast á við vandamál sem gætu fylgt viðsnúningi útlánaþróunar og minni gæðum útlána, segir greiningardeild Landsbankans.

Fitch Ratings metur það sem svo að áhætta hafi aukist í heiminum á undanförnum sex mánuðum, segir greiningardeildin.

Mikil viðkvæmni íslenska bankakerfisins fyrir þjóðhagslegum þáttum er vegna mikils útlánavaxtar, hækkun á raungengi krónunnar sem og vegna hækkana á hlutabréfa- og fasteignamörkuðum.

Útlánaaukning íslensku bankanna veldur áhyggjum, segir í nýútkominni skýrslunni, en það skýrist af þremur þáttum.

Aukningin er vegna aðkomu bankanna að fjármögnum ýmissa stórframkvæmda, vegna aukinni fjármögnun bankanna á samrunum og yfirtökum og af innkomu bankanna á húsnæðislánamarkaðinn

Áhættan er sú að ef útlánaþróunin undanfarið snýst við samhliða lækkunum á hlutabréfa- og fasteignamörkuðum geti það dregið úr útlánagæðum og haft afleiðingar á afkomu bankanna., segir Fitch Ratings.

Tveir þættir eru notaðir til þess að mæla áhættuna. Það er innri gæði og styrkur bankakerfa, og viðkvæmni einstakra bankakerfa fyrir þjóðhagslegum þáttum.

Áhættan er hvað mest þegar bankakerfi eru viðkvæm fyrir þjóðhagslegum þáttum og jafnframt lítinn innri styrkleika og gæði.

Þau lönd sem eru með bankakerfi sem er hvað líkast þess sem er á Íslandi, eru Írland, Noregur og Suður-Afríka. Þau fá öll áhættueinkunnina MPI 3 og B í fjárhagslegan styrkleika.

Fitch Ratings gefur einungis fimm löndum hæstu einkunn fyrir fjárhagslegan styrk, segir greiningardeild Landsbankans. Það eru Ástralía, Lúxemborg, Hollan , Bretland og Bandaríkin. Þau eru flokkuð í MP 2, þegar horft er til viðkvæmni fyrir þjóðhagslegum þáttum.