„Þegar litið er til allra þessara þátta virðist tenging við eða upptaka evru augljósasti kosturinn, sé á annað borð ákveðið að tengja gengi krónunnar öðrum gjaldmiðli eða taka hann upp," segir í nýju riti Seðlabanka Íslands, Valkostir Íslands í gjaldmiðlis- og gengismálum. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, kynnti skýrsluna fyrir fjölmiðlum kl. 16 í dag, og sagði hana ráðgjöf bankans til þjóðarinnar.

„Evrusvæðið vegur langþyngst í utanríkisiðskiptum þjóðarinnar og erlendum skuldum hennar og er evran algengasta uppgjörsmynt erlendra viðskipta hennar ásamt Banaríkjadal,“ segir í skýrslunni.

„Evrusvæðið er jafnframt næststærsta myntsvæði heimsins á eftir því bandaríska. Því fylgir tengingu við evruna viðbótarábati, vegna þess að fjöldi annarra ríkja gerir slíkt hið sama eða reynir að draga úr sveiflum gagnavart henni. Tengsl innlendrar hagsveiflu við hagsveiflu evrusvæðisins eru hins vegar takmörkuð. Niðurstöður rannsókna benda þó til þess að slík tengsl aukist jafnan við aðild að myntbandalagi,“ segir í skýrslunni.