Forsvarsmenn útgerðarfyrirtækisins Bergs-Hugins ætla ekki að verða við kröfu Elliða Vignissonar, bæjarstjóra Vestmannaeyja, um að fallið verði frá sölu fyrirtækisins til Síldarvinnslunnar.

Elliði hefur áður lýst því yfir að bærinn eigi forkaupsrétt á fyrirtækinu og hyggst hann fara með málið fyrir dómstóla. Forsvarsmenn Berg-Hugins segja að ákvæði laganna um forkaupsrétt séu afar skýr samkvæmt fréttatilkynningu frá félaginu. Þau taki aðeins til sölu á fiskiskipum, ekki til sölu á hlutabréfum. Þá sé sala á veiðiheimildum ekki háð forkaupsrétti.

Einnig er tekið fram að eigendur bréfa í félaginu hafi áður verið í höndum félaga með heimilisfesti í Reykjavík. Ekki hafi verið gerðar athugasemdir við þetta áður. Nú verði eigendur bréfanna með heimilisfesti í Neskaupsstað.

Þá segir að ekki standi til að flytja heimilisfesti Bergs-Hugins frá Vestmannaeyjum.