Hreinn hagnaður MP fjárfestingabanka á fyrstu sex mánuðunum nam 1,1 milljarði króna en það er 94%
aukning frá sama tíma fyrir ári.

Hreinar vaxtatekjur námu 159 milljónum króna á fyrstu sex mánuðunum samanborið við 269 milljónir króna neikvæðar vaxtatekjur fyrstu sex mánuði árið 2006.

Arðsemi eigin fjár jafngildir 41,7% ávöxtun á ársgrundvelli fyrstu sex mánuðiársins 2007.

Vaxtatekjur jukust um 126% fyrstu sex mánuði ársins samanborið við fyrstu sex mánuði árið 2006 og námu 2.191 milljónum króna.

Rekstrartekjur námu 1.788 milljónum króna eftir fyrstu sex mánuðina sem er 69% aukning frá sama tímabili árið áður.

Þóknanatekjur jukust um 50% samanborið við fyrstu 6 mánuði árið 2006, úr 548 milljónum króna í 821 milljón.

Gengishagnaður nam 808 milljónum króna eftir fyrstu 6 mánuði ársins 2007 samanborið við 779 milljónir króna eftir sama tímabil á síðasta ári.

Heildareignir bankans voru 42.435 milljónir króna í lok júní 2007, samanborið við 42.837 milljónir króna í lok síðasta árs.

Eigið fé var 5.804 milljónir króna þann 30. júní 2007 sem er 18% aukning frá 31. desember 2006.

Eiginfjárhlutfall (CAD) samstæðunnar var 24,70% í lok júní 2007 samanborið við 19,2% í byrjun árs.

Fjöldi starfsmanna var 26 þann 31. desember 2006 en var orðinn 41 þann 30. júní 2007.

Fyrri hluti ársins 2007 var mjög hagfelldur í rekstri MP Fjárfestingarbanka. Bankinn skilaði methagnaði og jukust þóknanatekjur verulega á milli ára. Hreinn vaxtamunur jókst einnig mikið frá fyrra ári.

Efnahagur bankans stóð nánast í stað frá byrjun árs og skýrist fyrst og fremst af minnkandi stöðutöku úr hlutabréfum sem og skuldabréfum. Gengishagnaður bankans var góður á fyrri hluta ársins og er að langmestu leyti innleystur hagnaður. Starfsemi bankans hélt áfram að vaxa í Mið- og Austur Evrópu þar sem megin vaxtabroddur bankans er til framtíðar.

Í tilkynningu segir að framtíðarhorfur bankans séu nokkuð góðar þrátt fyrir sveiflur á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Stefnt er að því að auka hreinan vaxtamun áfram í starfsemi bankans. Einnig hefur bankinn aukið tekjur sínar erlendis til mikilla muna með opnun útibúsins í Vilnius ásamt beinni aðild að öllum norrænu kauphöllunum og  stofnun austur-evrópsks viðskiptaborðs.

Stefna bankans er að auka áfram hlutfall erlendra tekna. Í dag eru 8 starfsmenn í útibúi bankans í Vilnius og 38 í höfuðstöðvum bankans í Reykjavík. Á fyrri hluta ársins lauk bankinn sínu fyrsta erlenda sambankaláni og bætir þar með fjármögnunarleiðir bankans.