Hagvöxtur í Bandaríkjunum var 3,7% á þriðja ársfjórðungi samkvæmt tölum frá bandaríska viðskiptaráðuneytinu. Sérfræðingar í könnun Bloomberg höfðu spáð 4,3% hagvexti og er niðurstaðan því undir væntingum. Hagvöxturinn er þó meiri en hann var á öðrum ársfjórðungi þegar hann mældist 3,3%. Einkaneysla, sem vegur þungt í landsframleiðslunni, jókst um 4,6% á fjórðungnum og er þetta þrefalt meiri vöxtur en á öðrum ársfjórðungi. Hagvaxtaraukningin nú er því að miklu leyti til komin vegna aukinnar einkaneyslu. Lækkun birgða og aukinn viðskiptahalli drógu hins vegar úr hagvexti.

Í Vegvísi Landsbankans er bent á að ekki er búist við áframhaldandi hagvaxtaraukningu í Bandaríkjumum og telja sérfræðingar að hann muni minnka á síðasta fjórðungi ársins. Sérfræðingar Citigroup spá fyrir um að hagvöxtur verði 3,1% á tímabilinu enda búast þeir við að hátt olíuverð hafi mikil áhrif á hagkerfið og muni minnka hagvöxtinn um tæpt 1%.

Sérfræðingar gera ráð fyrir því að bandaríski seðlabankinn muni hækka stýrivexti sína um 25 punkta á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum í nóvember. Ekki ríkir jafn mikil vissa hvað áframhaldandi stýrivaxtahækkanir varðar og er talið að spár um minni hagvöxt á síðasta fjórðungi ársins dragi úr líkum á áframhaldandi stýrivaxtahækkunum.