Heildar útlán Íbúðalánasjóðs námu þremur milljörðum í febrúar, segir greiningardeild Kaupþings banka. Það er 2,8 milljarða samdráttur frá því á sama tíma fyrir ári en 0,4 milljarða króna aukning frá fyrri mánuði.

Á fyrstu tveimur mánuðum ársins hafa því heildarútlán sjóðsins dregist saman um 45% eða 4,65 milljarða frá því á sama tíma í fyrra, segir greiningardeildin.

Í febrúar námu greiðslur Íbúðalánasjóðs um 7 milljörðum króna en þar af nam innlausn húsbréfa um 2 milljörðum og greiðsla af HFF24 nam 4,75 milljörðum króna.

Sjóðurinn hefur ákveðið að nýta sér heimild til aukaútdráttar í pappírsflokkum fyrir um 515 milljónir króna og í rafrænum flokkum fyrir um 915 milljónir króna.

Heimild Íbúðalánasjóðs til uppgreiðslna nam um 2,1 milljarði króna þann 1. mars 2006.