Tryggja þarf verulega aukið framboð íbúða til að tryggja stöðugleika á markaðnum til frambúðar að mati starfshóps stjórnvalda um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði. Starfshópurinn, sem var skipaður af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, skilaði af sér skýrslunni í dag.

Tillögur starfshópsins til að örva framboðið snúa að því að efla langtímaáætlanagerð í húsnæðismálum, samþætta skipulags- og byggingarferla, endurskoða tengda löggjöf, tryggja uppbyggingu samgönguinnviða samhliða fjölgun íbúða, auka húsnæðisöryggi leigjenda og lækka byrði húsnæðiskostnaðar hjá efnaminni leigjendum. Þá er lagt til að almenna íbúðakerfið verði eflt og hlutdeild þess á leigumarkaði aukist.

Bent er á að þarfagreiningar sveitarfélaga í húsnæðisáætlunum áætla að þörf sé á 35 þúsund nýjum íbúðum á næstu tíu árum til að mæta fólksfjölgun. Sá fjöldi ekur ekki tillit til uppsafnaðrar þarfar sem var metin um 4.500 íbúðir í maí 2021. Bráðabirgðamat hagdeildar HMS telur að byggja þurfi 3.500-4.000 íbúðir árlega næstu 5-10 árin. HMS áætlar að 2.783 nýjar íbúðir komi inn á markaðinn í ár og 3.098 á næsta ári.

Almennar íbúðakerfið verði eflt

Starfshópurinn leggur til að almenna íbúðakerfið verði eflt enn frekar og áframhaldandi þróun og uppbygging þess verði tryggð. Lög um almennar íbúðir tóku gildi árið 2016 og eru íbúðirnar ætlaðar leigjendum sem eru undir tilgreindum tekju- og eignamörkum við upphaf leigutíma. Frá því lögin voru sett hafa verið veitt stofnframlög til kaupa eða byggingar 2.993 almennra íbúða sem nemur rúmum 9% af áætluðum fjölda heimila á leigumarkaði. Fram kemur að mikil eftirspurn hafi verið eftir stofnframlögum í kjölfar þess að lögin voru samþykkt.

„Breyting varð hins vegar á því árið 2021 þegar ekki náðist að úthluta öllu því fjármagni sem heimildir voru fyrir í fjárlögum. Var skortur á byggingarhæfum lóðum nefnt sem ein skýring, önnur minni uppbygging á sértækum búsetuúrræðum og á landsbyggðinni jafnframt því sem gert var ráð fyrir og að kórónuveirufaraldurinn hafi að einhverju leyti hægt á umsvifum á byggingarmarkaðnum.“

Starfshópurinn telur þó að almenna íbúðakerfið svari mörgum þeim áskorunum sem eru uppi á íslenskum leigumarkaði. Hann telur mikilvægt að efla enn uppbyggingu þess og hlutdeild á leigumarkaði. „Mikilvægt er að tryggja stöðuga fjármögnun kerfisins til lengri tíma og aukinn fyrirsjáanleika í úthlutunum stofnframlaga fyrir uppbyggingaraðila.“

Húsnæðiskostnaður fari ekki yfir 40% af ráðstöfunartekjum

Hvað varðar opinberan hússnæðisstuðning á borð við vaxtabætur, húsnæðisbætur og skattfrjálsa ráðstöfun séreignar segir starfshópurinn að ekki séu skilgreind viðmið um húsnæðiskostnað í núverandi lögum, að undanskildum lögum um almennar íbúðir.

Starfshópurinn telur æskilegt viðmið við slíkan stuðning sé að húsnæðiskostnaður verði ekki umfram 25% af ráðstöfunartekjum og aldrei hærri en 40% hjá tekjulægstu hópunum.

Í skýrslunni segir þó að erfitt reyndist að afla heildstæðar upplýsingar um húsnæðiskostnað, húsnæðisstuðning og greiningar á honum, þá einkum varðandi leigumarkað og sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélaga.

Þörf á heildstæðri húsnæðisáætlun til lengri tíma

Starfshópurinn, sem Gísli Gíslson og Anna Guðmunda Ingvarsdóttir leiddu, segir nauðsynlegt að ríki og sveitarfélög sameinist um sýn og stefnu í húsnæðismálum til lengri tíma. Það sé nauðsynlegt til að tryggja nauðsynlega uppbyggingu og stöðugleika í húsnæðismálum.

„Starfshópurinn leggur eindregið til að það skref verði nú stigið með gerð samkomulags ríkis og sveitarfélaga um heildstæða húsnæðisáætlun fyrir landið allt, sem væri skuldbindandi fyrir aðila næstu fimm árin og stefnumarkandi til næstu 10-15 ára.“

Slíkur samningur myndi m.a. kveða á um aðgerðir sveitarfélaga annars vegar til að tryggja tímanlegt lóðaframboð og stuðning frá ríkinu og hins vegar til að tryggja framboð íbúða á viðráðanlegu verði og aðgerðir til aukinnar samþættingar í málaflokknum. Þá yrðu sérstök markmið um framboðsstuðning af hálfu ríkisins til uppbyggingar félagslegs húsnæðis og annars húsnæðis með opinberum stuðningi að teknu tilliti til þarfa.

Endurskoða þurfi stjórnsýsluna

Í skýrslunni segir að sameiginleg stefnumótun og áætlunargerð ríkis og sveitarfélaga kalli á frekari samþættingu skipulags- og byggingamála og skapi um leið tækifæri til að einfalda afgreiðslu sveitarfélaga í málaflokkunum sem leiðir til aukinnar skilvirkni og framfara. Bent er á að í dag eiga sveitarfélögin samskipti við ríkið í skipulags- og húsnæðismálum í gegnum fjölmörg kerfi og þrjár stofnanir.

„Afleiðing þess getur verið óskilvirk og dýr stjórnsýsla, skortur á yfirsýn sem svo leiðir til „flöskuhálsa“ sem hafa neikvæði áhrif á framboð á húsnæðismarkaði. Mikilvægt er að stjórnvöld þjónusti almenning, fagaðila og framkvæmdaaðila með samræmdum hætti á sviði skipulags- og byggingarmála – gagnvart þessum aðilum er þetta samofinn ferill. Með frekari samþættingu næst betri yfirsýn, markvissari áætlunargerð og aukin hagkvæmni sem mun til framtíðar leiða til aukins stöðugleika á húsnæðismarkaði.“

Starfshópurinn segir jafnframt að flækjustig stjórnsýslunnar hafi aukist á undanförnum árum „en þrátt fyrir aukið umfang stjórnsýslunnar er ekki hægt að fullyrða að gæði húsnæðis hafi batnað að sama skapi“.

„Hins vegar er hægt að fullyrða að þessir flóknu ferlar hafa ekki tryggt stöðugt framboð húsnæðis. Tilefni er til að endurhugsa þessa opinberu lögbundnu ferla og skilgreina sameiginlegt meginmarkað þeirra, þ.e. að tryggja landsmönnum aðgengi að öruggu húsnæði.“