Síminn hefur í dag fengið greitt að fullu fyrir Mílu, annars vegar 32,7 milljarða króna í reiðufé og hins vegar 17,5 milljarða króna í formi skuldabréfa til þriggja ára. Þetta kemur fram í tilkynningu Símans til Kauphallarinnar. Skuldabréfið ber 4% vexti og er framseljanlegt og eru öll skilyrði kaupsamnings aðila þar með uppfyllt.

Þann 15. september var tilkynnt að Síminn og Ardian hefðu skrifað undir samkomulag um breytingar á samningi um kaup og sölu 100% hlutafjár í Mílu. Í tilkynningunni kom einnig fram að SKE hefði samþykkt viðskiptin með tilteknum skilyrðum og að efndadagur yrði í lok september 2022.

Áætlaður söluhagnaður Símans af viðskiptunum er nú 37,8 milljarðar króna að teknu tilliti til alls kostnaðar vegna viðskiptanna og uppfærðrar áætlunar um veltufjármuni og skuldir Mílu. Félagið hefur nú uppfært EBITDA afkomuspá fyrir árið 2022 og gerir ný spá ráð fyrir að EBITDA samstæðu verði á bilinu 5,8 til 6,1 milljarðar króna.

Stjórn Símans ætlar að boða til hluthafafundar í næstu viku sem áætlað er að haldinn verið þann 26. október. Á fundinum verður nánar gerð grein fyrir viðskiptunum og tillaga lögð fram um lækkun hlutafjár félagsins með greiðslu til hluthafa upp á 31,5 milljarða króna.

„Jafnframt er til skoðunar sala á framangreindu skuldabréfi eða eftir atvikum útgreiðsla þess til hluthafa en gera má ráð fyrir að tillaga þess efnis verði tekin fyrir á öðrum hluthafafundi.“