Í ársuppgjöri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem undirritað var á stjórnarfundi þann 19. apríl og birt var í dag kemur fram að hrein eign sjóðsins hafi verið 1.293 milljarðar króna í árslok 2022. Hrein raunávöxtun sjóðsins var -12,9% á árinu og segir í tilkynningu að langtímaávöxtun sjóðsins sé góð þrátt fyrir krefjandi ár á fjármálamörkuðum.

Raunávöxtun síðustu fimm ára er 4,3% að meðaltali og sé horft til síðustu 10 ára er meðaltal raunávöxtunar 4,9%.

Samkvæmt uppgjörinu fjölgaði virkum sjóðfélögum um ríflega 500 frá fyrra ári og var meðalfjöldi þeirra 30.590. Lífeyrisþegum fjölgaði einnig, og var meðalfjöldi þeirra 24.244 á síðasta ári samanborið við 23.408 árið á undan. Lífeyrisgreiðslur árið 2022 voru rúmlega 83 milljarðar króna.

Töluverð lækkun á bæði hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðum hér heima og erlendis á árinu leiddu til þess að eignasafn LSR minnkaði um 53 milljarða króna frá fyrra ári. Hins vegar frá lokum árs 2017 hefur vöxturinn verið um 467 milljarðar kr. Á því tímabili námu hreinar fjárfestingartekjur sjóðsins um 461 milljarði króna.

Eignasafn sjóðsins í árslok skiptist þannig að eign í skuldabréfum var 565,7 milljarðar króna, eign í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum var 672,7 milljarðar króna og innlán námu 53,9 milljörðum. Hlutfall eigna í erlendri mynt var tæplega 41% og hlutfall verðtryggðra eigna var um 34,3% af eignasafni sjóðsins í árslok 2022.