Meðal eigna þrotabús Fons, í eigu Pálma Haraldssonar, er lítill hlutur í flugfélaginu Iceland Express upp á 7,92 prósent. Hinir hlutirnir í flugfélaginu, þ.e. rúmlega 92% eru í eigu Fengs, eignarhaldsfélags sem einnig er í eigu Pálma Haraldssonar.

Iceland Express var reyndar fyrir um hálfu ári alfarið í eigu Fons og þar áður tilheyrði flugfélagið NTH, Northern Travel Holding, sem Fons átti líka. NTH átti einnig danska lággjaldaflugfélagið Sterling en sem kunnugt er varð Sterling gjaldþrota í lok október á síðasta ári.

Á sama degi og gjaldþrotinu var lýst yfir greindi Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, Viðskiptablaðinu frá því - og var það haft eftir honum á vb.is - að Iceland Express væri ekki lengur í eigu NTH heldur í eigu Fons. Nú er það hins vegar, sem fyrr sagði, að mestu í eigu Fengs.

Flugfélagið Iceland Express hefur þannig verið í eigu þriggja tengdra félaga á síðasta rúmu ári en félögin hafa öll verið í eigu Pálma. Félögin Fons og Fengur hafa sameiginlega skrifstofu við Suðurgötu í Reykjavík.

Formlega var úrskurðað að Fons skyldi tekið til gjaldþrotaskipta hinn 30. apríl sl. í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Ófært að standa að fullu í skilum við lánardrottna

Óskar Sigurðsson hrl. hefur verið skipaður skiptastjóri þrotabús Fons. Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að allar ráðstafanir í tengslum við félagið verði skoðaðar tvö ár aftur í tímann. Það þýðir m.a. að kannaðar verða þær ráðstafanir sem hægt verður að rifta komi til dæmis í ljós að einhver óeðlileg eignaskipti hafi farið fram á milli tengdra aðila á óeðlilegu verði.

Samkvæmt gjaldþrotalögum má rifta gerningi til nákominna sem farið hefur fram síðustu 24 mánuði fyrir frestdag, þ.e. þann dag sem dómara berst krafa um gjaldþrotaskipti.

Stjórn Fons óskaði eftir gjaldþrotaskiptum félagsins. Í úrskurði héraðsdóms segir að Fons sé ófært að standa í fullum skilum við lánardrottna sína og að engin von sé til þess, að því er best verði séð, að það ástand breytist til hins betra í fyrirsjáanlegri framtíð.

Í gögnum forsvarsmanna Fons til héraðsdóms segja þeir að skuldir umfram eignir séu um 20 milljarðar króna. Helstu kröfuhafar eru Landsbankinn og Íslandsbanki - nýju og gömlu bankarnir - en í kröfuhafahópnum eru einnig Kaupþing og Kaupþing í Lúxemborg.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .