Gengið hefur verið frá hlutafjáraukningu í Maru Seafood P/F í Færeyjum, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar. Nú eiga Coldwater UK, dótturfélag Icelandic Group, Maru Holding Sp/f og útgerðafélagið Beta P/F hvert um sig þriðjungs eignarhlut í félaginu.

Fyrir hlutafjáraukninguna átti Coldwater UK 50% eignarhlut í Maru Seafood P/F í Færeyjum á móti Maru Holding Sp/f.

Maru Seafood á 67% eignarhlut í félögunum Norðís og Eystís í Færeyjum. Þau félög eiga og reka tvo línubáta auk þess að vera með fiskvinnslu þar sem unnið er úr um 4.000 tonnum af hráefni árlega. Afurðirnar eru annars vegar saltfiskur fyrir Spánarmarkað og hins vegar reyktar afurðir fyrir markaði í Bretland og Bandaríkjunum.

Maru Seafood P/F kaupir Kósin P/F

Samhliða hlutafjár-aukningunni var gengið frá kaupum Maru Seafood P/F á 96% eignarhlut í Kósin P/F í Færeyjum. Kósin P/F á og rekur frystihús í Klakksvík í Færeyjum. Á árinu 2006 er gert ráð fyrir að fyrirtækið vinni úr 12.000 tonnum af hráefni, aðallega ufsa, þorski og ýsu og er velta þess áætluð um 200 milljónir danskra króna og er það stærsta fiskvinnslufyrirtæki Færeyja.

Hjá félaginu vinna um 200 starfsmenn. Eftir þessi viðskipti verður árleg velta Maru Seafood um 300 milljónir danskra króna og mun félagið vinna úr 16.000 tonnum af hráefni.

Viðskiptin hafa óveruleg áhrif á efnahagsreikning Icelandic Group en eru liður í því að styrkja stöðu félagsins í hráefnisöflun og frumvinnslu á sjávarafurðum.