Mælt er með því að fjárfestar haldi hlutabréfum sínum í Högum í stað þess að kaupa, samkvæmt uppfærðu verðmati IFS Greiningar á félaginu í kjölfar skráningar á markað í síðustu viku.

Í uppfærðu verðmati er markgengi bréfa Haga eftir 9 til 12 mánuði 16 krónur á hlut. Í verðmati sem IFS gaf út fyrir útboð var verðmatsgengi 13 krónur á hlut og markgengi 15,5 krónur. Lækkun seljanleikaálags í kjölfar kauphallarskráningar og óvænt greiðsla vegna endurútreiknings lána eru helstu ástæður fyrir þessari breytingu, að því er segir í uppfærðu mati.

Fram kemur í nýja matinu að athygli veki að hvorki PwC, sem gerði fjárhagslega áreiðanleikakönnun á félaginu, né BBA/Legal, sem framkvæmdi lögfræðilega áreiðanleikakönnun, minntist á mögulega óvissu varðandi eldri lán félagsins. Þessar kannanir náðu aftur til 1. mars 2008. Könnun BBA/Legal tók meðal annars til samninga, lausafjár og fjármögnunar, auk dómsmála og annars ágreinings. Könnun PwC tók til fjárhags- og skattalegra þátta samstæðu Haga. Endurskoðunarfyrirtækið KPMG staðfestir í útboðslýsingu að reikningsskil sem fram koma í útboðslýsingu séu í samræmi við endurskoðaða ársreikninga og árshlutareikninga fyrir samstæðu Haga.