Íslenska stuttmyndin Heimanám verður sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes sem haldin verður í maí næstkomandi. Framleiðendur myndarinnar, þeir Birnir Jón Sigurðsson og Elmar Þórarinsson, fengu tilkynningu þess efnis á dögunum. Um er að ræða eina stærstu og virtustu kvikmyndahátíð í heimi.

Í samtali við Viðskiptablaðið segist Birnir vera undrandi og himinlifandi yfir því að Heimanám hafi hlotið inngöngu á hátíðina. Myndin var unnin í tengslum við skapandi sumarstörf hjá Kópavogsbæ og hafði áður hlotið fyrstu verðlaun í sínum flokki á hátíðinni Courts des Îles í Tahítí.

Heimanám fjallar um unglingsstrák sem á í erfiðleikum með að einbeita sér að lærdóminum. Hugurinn reikar og drengurinn öðlast skemmtilegt sjónarhorn á umhverfi sitt. „Við tveir erum eiginlega þeir einu sem eru í þessari mynd. Það er ein aukaleikkona sem heitir Kristín Ólafsdóttir, en annars gerðum við myndina bara alveg sjálfir. Við fengum lánaða myndavél og linsu og bjuggum til ljós úr ljósaperu, fengum að vera á ýmsum stöðum, fengum lánaðan bát frá Ými og eitthvað svona redd eins og alltaf þegar maður er að gera stuttmynd,“ segir Birnir.

Aðspurður segir Birnir að þetta sé mikið tækifæri fyrir sig og Elmar. Þeir fái að vera á hátíðinni og kynnast framleiðendum, hlusta á fyrirlestra og taka þátt í ýmsum viðburðum. Birnir stefni sjálfur á nám í kvikmyndum, en Elmar stefni líklega á nám í leiklist.

Heimanám á Youtube.