Benedikt Stefánsson, aðstoðarmaður efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að sér sé ekki kunnugt um að stjórn íslenska innstæðutryggingasjóðsins væri búin að ákveða nein viðbrögð kæmi til þess að látið yrði reyna á kröfur Breta og Hollendinga gagnvart sjóðnum.

„Stjórnin mun bregðast við því þegar þar að kemur," segir hann.

Áslaug Árnadóttir, skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu er jafnframt stjórnarfomaður íslenska innstæðutryggingasjóðsins.

Hún vildi ekki veita Viðskiptablaðinu viðtal þegar eftir því var leitað en vísaði á Benedikt.

Sem kunnugt er skapast greiðsluskylda sjóðsins gagnvart Icesave-innstæðueigendum í Bretlandi og Hollandi hinn 23. október næstkomandi.

Frestur sjóðsins til að greiða út kröfurnar hefur verið framlengdur í þrígang, þrjá mánuði í senn. Lokafresturinn rennur út 23. október.

Sautján og hálfur milljarður í sjóðnum

Sjóðurinn á lítið sem ekkert upp í kröfur Breta og Hollendinga, en eignir hans nema um sautján og hálfum milljarði króna. Því snúast Icesave-samningarnir um að Íslendingar veiti sjóðnum ríkisábyrgð til að mæta því sem ekki fæst úr eignum bús Landsbankans.

Ekki er hægt að taka sjóðinn til gjaldþrotaskipta en Stefán Már Stefánsson, prófessor við Háskóla Íslands, segir að lagalega ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að Bretar og Hollendingar höfði mál á hendur sjóðnum, geti hann ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Það yrði að gera fyrir íslenskum dómstólum. Þeir gætu síðan beðið um ráðgefandi álit frá EFTA.

Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, segir þó ólíklegt að Bretar og Hollendingar láti reyna á rétt sinn gagnvart sjóðnum meðan enn séu viðræður við þá í gangi.

Nánar er fjallað um þetta mál í Viðskiptablaðinu.