Heildartekjur Kaupfélags Skagfirðinga á árinu 2008 voru tæplega 19 milljarðar króna. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var rúmlega 3,1 milljarður króna. Hagnaður fyrir gengisbreytingu erlendra lána var tæpir 2 milljarðar króna en tap eftir reiknaða gengisbreytingu erlendra lána og skatta var 2,9 milljarðar króna.

Veltufé frá rekstri var rúmlega 3,5 milljarðar króna sem er veruleg aukning frá fyrra ári og það mesta sem félagið hefur skilað frá upphafi.

Nettóskuldir allra fyrirtækjanna í KS-samstæðunni voru samanlagt rúmlega 3 milljarðar króna í lok árs 2008 og höfðu minnkað frá fyrra ári.

Bókfært eigið fé félagsins í árslok 2008 var 10,5 milljarðar króna. Eiginfjárstaða félagsins er mjög traust og lausafjárstaðan sömuleiðis.

Starfsmenn Kaupfélags Skagfirðinga og dótturfélaga eru um 600 talsins. Stærstu dótturfélögin eru FISK Seafood og  Vörumiðlun sem KS á bæði að fullu, Fóðurblandan sem KS á 70% hlut í og Sláturhús KVH ehf. á Hvammstanga sem KS á helmingshlut í.