Kínversk stjórnvöld segjast hafa rétt til að setja upp flugvarnarsvæði yfir Suður-Kínahafi, á því svæði sem ríkið gerir tilkall til.

Flugvellir byggðir á kóralrifjum

Í gær hafnaði alþjóðlegur gerðardómur öllum kröfum kínverja til hafsvæðisins, en kínversk stjórnvöld viðurkenna ekki dóminn og lögsögu hans. Hafa stjórnvöld í landinu þegar lýst því yfir að dómnum verði ekki hlýtt, þrátt fyrir að Kína sé aðili að alþjóðasamningnum sem dómurinn byggir á.

Yfirlýsingin kom frá varautanríkisráðherra landsins, Liu Zhenmin, en kínversk stjórnvöld hafa byggt upp flugvelli og herstöðvar á umdeildum eyjum og kóralrifum á svæðinu.

Hótun ef ógnað

Sagði hann að ríkið myndi krefjast þess að allar flugvélar sem færu í gegnum svæðið þurfi að hlýta kínverskum reglum um að láta vita af flugleiðum og gefa upp upplýsingar um hvaða flugvél sé á ferðinni, „ef öryggi okkar er ógnað.“

Kínversk stjórnvöld settu upp svipað svæði á Austur-Kínahafi árið 2013. „Hvort við setjum upp svona svæði í Suður-Kínahafi fer eftir því hve ógnin verður mikil,“ sagði hann.

Sagðist hann hafa vonast til þess að allar þjóðir myndu „vinna með Kína til að verja friðinn og stöðugleikann á Suður-Kínahafi, og láta svæðið ekki verða upphafstað átaka.“

Bandarískur floti Filippseyjingum til stuðnings

Gerðardómstóllinn sem úrskurðaði í gær var settur upp til að meta söguleg réttindi og hafréttarlögsögu þeirra ríkja sem gera tilkall til svæðisins, hvort eyjar og sker á svæðinu teljist nægilega stórar til að mynda hafrétt í kringum sig og hve löglegar aðgerðir Kínverja væru sem Filippseyjingar segja brjóti alþjóðleg lög um hafsvæði.

Úrskurður gerðardómsins er bindandi, en hann hefur hins vegar engin völd til að framfylgja dómnum. Bandaríski flotinn hefur unnið með Filippseyjingum á svæðinu.