Fjárfestingafélagið Kjálkanes, systurfélag útgerðarfélagsins Gjögurs, keypti 1,6% hlut í Festi á liðnu ári. Gjögur átti nærri 4 milljónir hluti í Festi, móðurfélagi N1, Krónunnar og Elko, í árslok 2021 og er meðal tuttugu stærstu hluthafa félagsins. Þetta má sjá í ársreikningi Festi sem var birtur í gærkvöldi.

Markaðsvirði eignarhlutar Kjálkaness í Festi nemur um 940 milljónum króna miðað við gengi Festi í dag.

Kjálkanes er einnig næst stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar og fer með 17,4% hlut í útgerðarfélaginu. Kjálkanes seldi um 17% hlut fyrir tæplega 17 milljarða króna við hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar í maí 2021.

Kjálkanes á einnig óbeinan 5% hlut í Sjóvá, sem er yfir 2 milljarðar króna að virði, í gegnum félagið SVN eignafélag sem greiddur var út í arð til hluthafa Síldarvinnslunnar fyrir skráninguna á markað. Þá kom Kjálkanes inn í hluthafahóp snyrti- og húðvöruframleiðandanum Pharmarctica á Grenivík í hlutafjáraukningu félagsins síðasta sumar.

Sjá einnig: Útgerðarmenn fjárfesta í snyrtivörum

Eigendur Kjálkaness eru þeir sömu og eiga útgerðina Gjögur á Grenivík. Systkinin Ingi Jóhann Guðmundsson og Anna Guðmundsdóttir eru stærstu hluthafar Kjálkaness með nærri fjórðungshlut hvort um sig. Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair, er meðal hluthafa Gjögurs og Kjálkaness. Björgólfur sat í stjórn Festi á árunum 2018-2019.