Greiningardeild Landsbankans spáir því að hækkanir haldi áfram á íslenska hlutabréfamarkaðinum en að þær verði mun minni en hingað til. Þeir spá því að Úrvalsvísitalan, OMXI15, verði um 8.750 stig í lok árs og hafi þá hækkað um 37% á árinu.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýju riti Greiningardeildar, Equities: Earnings Estimates ? Outlook, þar sem fjallað er um hlutabréfamarkaðinn og spáð fyrir um afkomu fyrirtækja á síðasta ársfjórðungi.


Greiningardeild Landsbankans segir að íslenski hlutabréfamarkaðurinn hafi komið ágætlega út í samanburði við erlenda markaði þegar V/H-gildi, hlutfall markaðsverðs og hagnaðar, eru borin saman. Í þessu sambandi þarf þó að hafa hliðsjón af því að hér á landi vega fjármálafyrirtæki þyngra en erlendis og þau hafa almennt lægra V/H-gildi en framleiðslufyrirtæki. Önnur kennitala, EV/EBITDA, eða hlutfall heildarvirðis og hagnaðar fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, sýnir, líkt og V/H-gildin, að íslenski markaðurinn hefur almennt hækkað mikið. Eins og fram kemur í afkomuritinu er þessi kennitala því ekki eins hagstæð og um áramótin. Á heildina litið er markaðurinn þó sanngjarnt verðlagður, þrátt fyrir að nokkur félög séu á heldur hátt verðlögð.

Verðmat og spár greiningardeildar Landsbankans byggir meðal annars á þeirri forsendu að fyrirætlanir nýrrar ríkisstjórnar um skattalækkanir gangi eftir. Í útreikningum þeirra gera þeir ráð fyrir að tekjuskattar fyrirtækja lækki úr 18% í 15% árið 2009. Þetta hefur jákvæð áhrif á verðmat flestra fyrirtækja, sem á þátt í spá þeirra um hækkun Úrvalsvísitölunnar á árinu hefur hækkað frá því sem áður var.