Lava Cheese er nýtt íslenskt ostasnakk sem hefur verið að vekja athygli og í kjölfar góðs gengis hafa forsvarsmenn Lava Cheese og MS nú undirritað samstarfssamning um áframhaldandi þróun vörunnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Lava Cheese sprotafyrirtæki í eigu Guðmundar P Líndal og Jóseps B Þórhallssonar og Mjólkursamsalan hafa gert með sér samkomulag um samvinnu við vöruþróun og framleiðslu á Lava Cheese ostasnakki úr Cheddarosti MS. „Lava Cheese er íslensk matvara sem þeir félagar fengu hugmyndina að og hófu framleiðslu á í kjölfarið, en henni var strax vel tekið og er hún fáanleg á völdum sölustöðum á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

Markmið samkomulagsins er að skoða grundvöll fyrir samvinnu fyrirtækjanna um áframhaldandi þróun á Lava Cheese ostasnakki. Jafnframt er ætlunin að skoða mögulegan samstarfsgrundvöll við framleiðslu á vörunni.

Jón Axel Pétursson framkvæmdastjóri Sölu og markaðssviðs MS segist vera mjög spenntur fyrir þessu samstarfi og sér mikla möguleika fyrir þessa vöru í framtíðinni.    „Það er spennandi fyrir fyrirtæki eins og MS að vinna með ungum og efnilegum frumkvöðlum eins og Guðmundi og Jósepi og eru starfsmenn MS sammála því að þessi nýja vara sé frábær á bragðið og bjóði upp á spennandi möguleika til frekari vöruþróunar,“ segir Jón Axel.

Ef viðtökur verða góðar á innanlandsmarkaði eins og við væntum og gerum ráð fyrir ætlum við í framhaldinu að skoða í sameiningu útflutningsmöguleika á vörunni en MS hefur um árabil unnið með íslenska skyrið á fjölda erlendra markaða og hefur komið sér upp viðskiptatengslum sem gætu nýst í útflutningi á vörunni.“ Segir Jón Axel enn fremur.

Starfsafstaða í Landbúnaðarklasanum

Stefnt er að því að Lava Cheese muni í framtíðinni hafa starfsaðstöðu í Landbúnaðarklasanum þar sem nýir frumkvöðlar í framleiðslu og þróun matvæla úr íslenskum landbúnaði hafa komið sér fyrir. Landbúnaðarklasinn er  staðsettur á sama stað og Sjávarklasinn, sem hefur aðstöðu út á Grandagarði.

„Við erum spenntir fyrir samstarfinu og búumst við því að reynsla MS muni hjálpa okkur að þróa vöruna enn frekar. Þetta er einstakt tækifæri fyrir okkur til að vaxa og búa til vörur sem falla að smekk landsmanna," segja Guðmundur og Jósep.