Hlutabréf í Asíu lækkuðu í verði í dag, síðasta viðskiptadag ársins, og er lækkunin rakin til óvissu í kjölfar morðsins á Benazir Bhutto, fyrrum forsætisráðherra Pakistans. Einnig höfðu nýir hagvísar í Bandaríkjunum og Japan áhrif og kyntu undir áhyggjur af því að senn kynni að draga úr vexti á þessum stærstu efnahagskerfum heims. MSCI Asia Pacific vísitalan hafði lækkað um 0,5%, eða 156,4 stig, í lok viðskiptadags í Tókýó. Það er mesta lækkun á einum degi síðan 17. desember.

Bloomberg fréttastofan hefur eftir Daisuke Shimazu, fjárfestingastjóra hjá Sumitomo Trust Banking Co. í Tókýó, að þetta hafi verið dökkur endir á árinu. „Markaðurinn getur ekki hrist af sér undirmálslánavandræðin, þannig að fjárfestar þurfa að vera varkárir.

MSCI Asia Pacific vísitalan hækkaði um 11% á árinu, sem er minnsta árshækkun í fimm ár.

Á Indlandi hafa markaðir lækkað um 0,3% þegar þetta er skrifað, en markaðir í Pakistan voru lokaðir vegna morðsins á Bhutto. Hlutabréf í Pakistan hafa hækkað mikið í ár, eða um 47%.