*

laugardagur, 16. október 2021
Fólk 12. apríl 2021 10:35

Matthildur og Benedikt til Klappa

Hugbúnaðarfyrirtækið hefur ráðið Matthildi Fríðu Gunnarsdóttur og Benedikt D Valdez Stefánsson í þróunarteymi félagsins.

Ritstjórn
Matthildur Fríða Gunnarsdóttir og Benedikt D Valdez Stefánsson eru nýir starfsmenn Klappa.
Aðsend mynd

Hugbúnaðarfyrirtækið Klappir hefur ráðið Matthildi Fríðu Gunnarsdóttur og Benedikt D Valdez Stefánsson í þróunarteymi félagsins. Greint er frá ráðningu þeirra í fréttatilkynningu og er þar jafnframt sagt frá því að Klappir hafi undanfarin fimm ár þróað stafrænar lausnir á sviði umhverfismála sem lágmarka vistspor fyrirtækja.

Matthildur hefur starfað sem dæmatímakennari í gagnasafnsfræði, greiningu og hönnun hjá Háskólanum í Reykjavík. Hún starfaði einnig áður hjá Reiknistofa bankanna í viðhaldi og skjölun á vefþjónustum. Hún mun útskrifast sem BSc úr hugbúnaðarverkfræði frá HR í vor.

Benedikt starfaði áður hjá Össur við samþættingu á vefum þeirra, en þar áður hjá m.a. hugbúnaðarfyrirtækjunum Aranja og Kolibri við þróun stafrænna lausna og vefhönnun.

Klappir hafa vaxið jafnt og þétt á síðastliðnu einu og hálfu ári ári. Á síðasta ári fjölgaði notendum hugbúnaðarins um 72%. Klappir eru nú með yfir 300 íslenska hlutahafa, og rúmlega fjögur þúsund notendur í yfir 20 löndum nýta lausnir félagsins. Klappir voru skráðar á First North markað Nasdaq á Íslandi árið 2017.

„Við erum afar ánægð með þann árangur sem hefur náðst að undanförnu og nýjum notendum hefur fjölgað hratt. Við bjóðum þau Matthildi og Benedikt hjartanlega velkomin í hópinn til okkar,“ segir Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa, í tilkynningunni.

„Íslensk fyrirtæki, sveitafélög og stofnanir eru að auka mjög nýtingu á stafræna lausnarpallinum okkar. Með hugbúnaðinum geta fyrirtæki og stofnanir lágmarkað vistspor sitt og rekstrarkostnað í leiðinni. Auk þess geta þau dregið úr áhættu með að tryggja fylgni við umhverfislöggjöf hverju sinni og sýnt fram á árangurinn með því að nota stafræna tækni til að halda grænt bókhald. Við munum áfram leggja áherslu á að styrkja innviði félagsins, efla markaðssetningu og dreifingu á lausnum félagsins bæði hér heima sem og á alþjóðamörkuðum,“ bætir hann við.

Stikkorð: Klappir