Félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK) telur aðgerðir stjórnvalda ekki hafa gengið nógu langt. Styrkur upp á 2,4 milljónir til fyrirtækja, sem hafa þurft að loka vegna samkomubannsins, hrökkvi skammt. Kvikmyndahúsin hafi til dæmis tapað á annað hundrað milljónum í aðgangstekjur á þeim fjórum vikum sem þau hafa þurft að hafa lokað. Inni í þeirri upphæð séu ekki tekjur vegna veitingasölu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá FRÍSK.

„Meira þarf því að koma til", segir í tilkynningunni. „Það þarf ekki endilega að vera í formi styrkja því til greina kemur að grípa til aðgerða sem mundu hjálpa kvikmyndahúsum þegar eðlileg starfsemi hefst að nýju og teljast frekar til sanngirnissjónarmiða en aðgerðapakka.

Hér á landi hafa miðar í kvikmyndahús og myndefnisleigur ( VOD Video on Demand ) verið í hærra þrepi virðisaukaskatts, sem er 24%, auk þess sem lagt er 1% STEF-gjald á hvern seldan miða í kvikmyndahúsum. 25% skattur er því lagður á hvern bíómiða, sem er einn hæsti skattur sem lagður er á bíómiða í heiminum. Bækur, tónlist og áskrift að sjónvarpsstöðvum eða streymisveitum ( S - VOD Subscription on Demand ) eru hins vegar í neðra þrepi virðisaukaskatts, sem FRÍSK telur einstaklega ósanngjarnt. Sá sem horfir á sjónvarpsstöð heima hjá sér í samkomubanni borgar því 11% virðisaukaskatt fyrir áskriftina á meðan sá sem leigir hjá myndefnisleigu eða fer í kvikmyndahús borgar 24%.

Í kjölfar þess skaða sem kvikmyndahús verða fyrir þessa dagana og í fyrirsjáanlegri framtíð vill FRÍSK hvetja yfirvöld til að breyta þessu sem fyrst."

500 milljónir í talsetningu

FRÍSK, sem eru hagsmunasamtök rétthafa myndefnis, kvikmyndahúsa, myndefnisleiga og helstu sjónvarpsstöðva landsins, bendir ennfremur á að kostnaður vegna talsetningar sé mjög mikill. Hjá talsetningu verði ekki komist þar sem skylt sé að texta allt efni samkvæmt lögum.

„Kostnaður félagsmanna FRÍSK við talsetningu og textun er í kringum 500 milljónir króna á ári. Í núverandi rekstrarumhverfi er sá kostnaður svo þungur baggi að hann skerðir rekstrargrundvöll félagsmanna umtalsvert og setur félagsmenn í erfiða stöðu í sífellt harðnandi samkeppni við erlenda aðila. Að mati FRÍSK mæla sterk rök með því að hið opinbera styðji við bakið á þeim sem bera texta- og talsetningarskyldu samkvæmt ákvæðum fjölmiðlalaga. Ein aðgerð sem mundi bæta úr þessu væri að stofnaður yrði sérstakur sjóður til að styðja við talsetningu og textun á erlendu efni. Í þennan sjóð geta svo aðilar með starfsstöðvar hér á landi sótt um styrki til að talsetja og texta efni."