Hörð átök eru nú í aðdraganda væntanlegs leiðtogakjörs í UK Independence Party eftir að Nigel Farage leiðtogi flokksins tilkynnti um afsögn sína. Framkvæmdastjórnin hafnar framboði Steven Woolfie en hann nýtur stuðnings helstu bandamanna Nigel Farage.

Fyrrum varaformaður ekki heldur með

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá þá gaf Suzanne Evans fyrrum varaformaður flokksins uppá bátinn að taka slaginn í kjölfar þess að vera vísað úr flokknum tímabundið.

Gagnrýndi hún þá innan flokksins sem hún kallaði teboðshreyfinguna og sagði nauðsynlegt að flokkurinn losnaði við harðlínuhægriímynd sína. Lýsti hún yfir stuðningi við framboð Lisu Duffy sem litið hafði verið á sem þann frambjóðenda sem væri ólíkust Nigel Farage sem nú hættir sem leiðtogi. Farage sjálfur hefur sagt ekki ætlað að styðja neinn frambjóðanda.

Bandamenn Farage styðja Woolfie

Helstu stuðningsmenn Farage styðja hins vegar Steven Woolfie sem verðandi leiðtoga en nú hefur framkvæmdastjórn flokksins ákveðið að hafna framboði hans á þeim forsendum að hann hafi skilað framboði sínu 17 mínútum of seint.

Segir hann það hafa verið vegna tölvuörðugleika og gagnrýnir framkvæmdastjórnina harðlega og segir hana vera óhæfa til sinna starfa að nota þetta sem afsökun til að halda honum frá því að vera í framboði.

Fórnarlamb valdaráns íhaldsmanna

Í kjölfarið sögðu þrír stjórnarmenn í framkvæmdastjórninni, þau Victoria Ayling, Ray Finch og Mike McGough af sér til að mótmæla ákvörðuninni. Áður en ákvörðunin var tilkynnt sagðist Arron Banks, helsti styrktaraðili flokksins að hann myndi kalla eftir því að aukalandsfundur yrði haldinn til að leggja framkvæmdastjórnina af.

Segir hann að Woolfie sé fórnarlamb valdaráns bandamanna Neil Hamilton. Raheem Kassam, helsti aðstoðarmaður Farage hótaði jafnframt að „Ef Steven Woolfie er haldið frá því að bjóða sig fram vegna tæknilegra ástæðna, mun ég lýsa yfir allsherjarstríði á UKIP, og mun nota öll þau meðul sem ég hef yfir að ráða til að velta Íhaldsklíkunni sem er að reyna að taka völdin í flokknum. Þetta er viðvörun og loforð.“

Farage getur enn stöðvað leiðtogakjörið

Farage er enn formaður flokksins og hefur hann völd til að skipa nýjan formann framkvæmdastjórnarinnar og stöðva kosninguna um leiðtogann. Segja heimildarmenn síðunnar order-order.com að hann sé á þeirri skoðun að verið sé að svindla á Woolfie að undirlagi andstæðinga Farage sjálfs í framkvæmdastjórninni.

Segja bandamenn Farage að þeir hafi sannanir fyrir því að hagsmunaárekstrar séu meðal þeirra sem standa gegn Woolfie, þar á meðal vegna persónulegra sambanda sem geri framkvæmdastjórnina óhæfa til sinna starfa.