Neytendastofa hefur beðið Húsasmiðjuna afsökunar á frétt sem birtist á heimasíðu þeirra um ástand verðmerkinga í byggingavöruverslunum. Fréttinni hefur nú verið breytt. Eins og greint var frá á vb.is í vikunni þá mátti skilja á frétt Neytendastofu að 20% verðmunur væri á hillu- og kassaverði í Húsasmiðjunni Skútuvogi við verðkönnun í júlí.

Neytendastofa hefur nú birt afsökunarbeiðni á heimasíðunni þar sem fram kemur að draga mátti rangar ályktanir við lestur fréttarinnar, einkum hvað viðkemur lýsingu á ástandi verðmerkinga í verslun Húsasmiðjunnar Skútuvogi, en af fréttinni mátti ráða að það væri mun verra en það í raun var. Neytendastofa biður Húsasmiðjuna afsökunar á þeim mistökum sem gerð voru við vinnslu fréttarinnar. Í vettvangskönnun Neytendastofu í júlí voru gerðar fimm athugasemdir í verslun Húsasmiðjunnar Skútuvogi og þá vantaði verðmerkingar á vörustæður.