Íslensk fyrirtæki geta nú sótt um svokallað greiðslutryggingarálit í gegnum Arion banka sem er milligönguaðili fyrir greiðslutryggingarfyrirtækið Euler Hermes. Íslensk innflutningsfyrirtæki hafa verið í vandræðum frá bankahruninu með greiðslukjör sín við erlenda birgja og þurft að staðgreiða vörur fyrirfram þar sem greiðslutryggingar hafa ekki fengist.

Umrætt greiðslutryggingarálit má rekja til fundar Euler Hermes með íslenskum innflutningsfyrirtækjum og Arion banka síðastliðið haust þar sem tryggingafélagið kvartaði meðal annars undan lélegu upplýsingaflæði frá íslenskum fyrirtækjum og mátti greina nokkuð vantraust í garð þeirra eftir hrunið.

„Fyrir mörg fyrirtæki skiptir þetta miklu máli. Af því að það er alveg vitað að eftir hrun þá hefur okkur gengið erfiðlega að fá  greiðslufresti hjá fyrirtækjum erlendis,“ segir Margrét Kristmannsdóttir, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, um mikilvægi slíkra greiðslutrygginga. Hún bendir á að mörg fyrirtæki neiti einfaldlega að veita innflytjendum greiðslufresti nema gegn tryggingu. Þar sem slíkar tryggingar hafi ekki verið fyrir hendi þá hafi þurft að fjármagna birgðir með mun dýrari ætti en annars væri hægt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu 12. september 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð .